Eimskipafélag Íslands segir að álagning kolefnisgjalds sé ótímabær þar sem nauðsynlegir innviðir séu ekki til staðar miðað við áform. Að þeirra mati er mikilvægt að fyrirtæki sem reka flutningabíla fái nægan aðlögunartíma en að öllu óbreyttu mun gjaldið leiða til hærra vöruverðs.
Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp á haustþingi um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025.
Með frumvarpinu er áformað að greitt verði kílómetragjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð því í hvaða flokki ökutækið er í. Kílómetragjaldið kemur í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðefnaeldsneyti, og verða þau samhliða felld brott.
Í umsögn Eimskips í samráðsgátt stjórnvalda segir ljóst að slík skatthækkun muni óhjákvæmilega hafa áhrif á flutningskostnað fyrirtækja líkt og Eimskips.
Aukinn kostnaður við flutninga leiðir til hærra vöruverðs fyrir neytendur, sem mun einkum bitna á íbúum landsbyggðarinnar þar sem vegalengdir eru langar.
„Gjaldtakan er því í eðli sínu landsbyggðarskattur sem stuðlar ekki að auknu jafnræði óháð búsetu með fjölbreyttri atvinnustarfsemi, vöruúrvali og verðmætasköpun. Enn fremur er mikilvægt að hafa í huga að þessir auknu kostnaðarliðir gætu dregið úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum. Þó að áform þessi séu sett fram með umhverfisvernd að leiðarljósi gæti gjaldtakan einnig, líkt og hún er fyrirhuguð, haft þveröfug áhrif,“ segir í umsögn Eimskips.
Eimskip bendir á að því fleiri léttir flutningabílar sem verða á vegum landsins í stað stærri tækja, því meiri verður heildarútblástur og vegslit. Þetta er sér í lagi áhyggjuefni hér á landi þar sem vegakerfið er viðkvæmt og veðurfar oft krefjandi.
Flutningsfyrirtækið segir að áhrif þessara skatta muni koma fram í auknum rekstrarkostnaði fyrirtækja.
„Það er hins vegar alkunna að óbeinir skattar, líkt og leiða af áformum þessum, rata með beinum hætti í verðlag innlendrar framleiðslu og draga um leið úr samkeppnishæfni útflutningsvöru. Mikil hækkun gjalda, án þess að raunhæfir valkostir séu til staðar, getur þannig haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, bæði innanlands og á alþjóðamarkaði. Er því mikilvægt að stjórnvöld gæti jafnvægis í skattlagningu og leggi áherslu á langtímaáætlanir sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem hafa mikla þýðingu fyrir atvinnu- og efnahagslíf á landsbyggðinni sem og um land allt,“ segir í umsögn Eimskips.
Að lokum hvetur Eimskip stjórnvöld til að endurskoða áformin og tryggja að nægur tími sé til aðlögunar svo hægt sé að laga rekstur að breyttum aðstæðum, án þess að það bitni á þjónustu, verðlagi eða leiði til aukinna umhverfisáhrifa.