Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, á von á gjaldþrotum hjá keppinautum hans á næstu misserum vegna hækkandi olíuverðs.

Olíuverð hefur hækkað hratt að undanförnu. Tunna af Brent hráolíu kostar nú tæplega 80 dollara en kostaði 63 dollara í febrúar síðastliðnum en fór lægst undir 30 dollara í ársbyrjun 2016.

O'Leary segir að þó að hækkandi olíuverð muni væntanlega ýta einhverjum flugfélögum yfir brúnina verði undirliggjandi ástæður falls þeirra breytt samkeppnisumhverfi á flugleiðum í Evrópu. „Sum af þessum flugfélögunum skiluðu ekki hagnaði þegar tunnan kostaði 40 dollara á síðasta ári. Ég held að þau muni ekki lifa af næsta vetur ef olíuverð helst svona hátt," sagði O'Leary í viðtali við CNBC .

Ryanair skilaði methagnaði á síðasta ári þrátt fyrir að hafa þurft að aflýsa mörg þúsund flugferða í haust vegna mistaka við uppröðun á vaktaáætlunum flugmanna flugfélagsins. O'Leary sagðist engu síður vera svartsýnn á vaxtahorfur Ryanair næstu misseri vegna hækkandi olíuverðs og lítilla hækkana flugfargjalda. Ryanair, sem er stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, hagnaðist um 1,45 milljarða evra eftir skatta, um 179 milljarða króna, á síðasta rekstarári sem lauk í lok mars, og jók hagnað sinn um 10% milli ára.