Á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru 921 fyrirtæki nýskráð í atvinnurekstri, þar af 783 einkahlutafélög. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en þar segir að til samanburðar hafi 910 nýskráningar átt sér stað á sama tíma í fyrra.

Flestar nýskráningar voru þá í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða 139, sem er 4% aukning miðað við sama tímabil fyrra árs.

Á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru 286 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta en það er 20% fækkun frá sama tímabili fyrra árs þegar 359 fyrirtæki urðu gjaldþrota.

Af þeim 286 fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta voru 106 með virkni á fyrra ári, þ.e. höfðu rekstrartekjur eða greiddu laun árið 2024. Þrátt fyrir að gjaldþrotum í heild hafi fækkað þá fjölgaði gjaldþrotum virkra fyrirtækja um 39% miðað við sama tímabil fyrra árs.

Hjá þeim virku fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta fjórðungi 2025 störfuðu að jafnaði 500 starfsmenn árið 2024. Eftir atvinnugreinum störfuðu flestir í einkennandi greinum ferðaþjónustu, eða 192, og litlu færri í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 154.