Heið­rún Lind Marteins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi, segir vafa­laust að það megi deila hvar þau mörk eru þar sem gjald­taka hins opin­bera er farin að vinna gegn mark­miðum sínum. Hins vegar er til fólk sem þykir gjald­taka af nýtingu sjávar­auð­lindarinnar aldrei nógu há.

„En um það verður ekki deilt, að það eru út­flutnings­at­vinnu­vegirnir sem drífa hér á­fram hag­vöxt og góð lífs­kjör. Varan­legur út­flutnings­vöxtur er með öðrum orðum grund­völlur hag­sældar. Það er því betur heima setið en af stað farið, ef gjald­taka hins opin­bera dregur úr þrótti út­flutnings­fyrir­tækja til þess að skapa meiri verð­mæti í dag en í gær,“ skrifar Heið­rún í Morgun­blaðið en grein hennar birtist einnig á vef SFS.

„Hvað fyrir ráð­herra vakir er ó­ljóst”

Heið­rún rifjar þetta upp í til­efni af frum­varps­drögum Svan­dísar Svavars­dóttur mat­væla­ráð­herra.

„Líkt og margir þekkja tekur ríkið til sín þriðjung af af­komu fisk­veiða í auð­linda­gjald. Fisk­veiðar eru bæði á­hættu­samar og fjár­frekar. Það þarf mikla fjár­muni til þess að tryggja tekju­vöxt, sam­fé­laginu öllu til hags­bóta. Sé litið til mikilla og nauð­syn­legra fjár­festinga á um­liðnum árum hefur góð af­koma verið nýtt skyn­sam­lega. Nú virðist mat­væla­ráð­herra hins vegar telja rétt að hefta veru­lega þessa mikil­vægu veg­ferð. Hvað fyrir ráð­herra vakir er ó­ljóst, en í öllu falli getur það ekki verið á­fram­haldandi mikil­vægt fram­lag sjávar­út­vegs til hag­vaxtar og góðra lífs­kjara.”

„Ein­hvers konar gjald­töku­græðgi virðist því miður hafa sótt að ráð­herra. Ekki að­eins leggur ráð­herra til breytingu á reikni­reglu veiði­gjalds af upp­sjávar­veiðum, heldur bætir hann um betur og leggur að auki til hækkun tekju­skatts á sjávar­út­vegs­fyrir­tæki og upp­boð afla­heimilda til eins árs í senn. Auð­linda­gjaldið á því að sækja úr þremur ó­líkum áttum! Svo virðist sem ráð­herra telji að unnt sé að greiða marg­sinnis með sama peningnum,“ skrifar Heið­rún.

„Verður allra tap“

Heið­rún segir að í gegnum alla vinnu við stefnu­mótun mat­væla­ráð­herra, undir heitinu Auð­lindin okkar, hafi Svan­dísi verið tíð­rætt um mikið sam­ráð og mikil­vægi gagn­sæis. Það sé því miður ekki upp­lifun hag­aðila, enda hafa öll sam­tök fyrir­tækja í sjávar­út­vegi og öll stéttar­fé­lög fólks sem starfar í sjávar­út­vegi lýst hinu gagn­stæða, segir Heið­rún.

„Til­laga um um­fangs­mikla breytingu á auð­linda­gjaldi í sjávar­út­vegi stað­festir upp­lifun þessara aðila. Til­lagan var aldrei rædd í stefnu­mótunar­vinnu mat­væla­ráðu­neytis, ekkert mat hefur verið lagt á það hver raun­veru­leg skatt­heimta verður ef þessi breyting nær fram að ganga og gjald­taka af nýtingu sjávar­auð­lindar verður að líkindum, horft fram veginn, ó­gagn­særri en nokkru sinni fyrr.“

Heið­rún minnir ríkis­stjórnina á að í stjórnar­sátt­mála var tekið fram að það væri sér­stakt á­herslu­mál að efla mat­væla­fram­leiðslu, þ. m. t. fram­leiðslu sjávar­af­urða, og skapa sam­keppnis­hæft rekstrar­um­hverfi.

„Þá átti jafn­framt að huga að að­gerðum til frekari árangurs Ís­lands á þessu sviði. Undir þetta má taka, enda er stóra verk­efnið að tryggja hag­sæld hér á landi.Hvergi var í stjórnar­sátt­mála vikið að veru­legri hækkun eða eðlis­breytingu á gjald­töku í sjávar­út­vegi. Verður því ekki á annan veg ráðið en sótt hafi að mat­væla­ráð­herra áður óséð græðgi í gjald­töku.“

„Ein­földu veiði­gjaldi var í einu vet­fangi um­turnað í þrí­höfða þurs með blöndu veiði­gjalds, tekju­skatts og upp­boða. Það hlýtur að teljast sann­gjörn og eðli­leg krafa að ráð­herra geri grein fyrir á­hrifum þessa á sam­keppnis­hæfni, verð­mæta­sköpun og starfs­skil­yrði sjávar­út­vegs, bæði til lengri og skemmri tíma litið. En lík­lega er niður­staða þeirrar greiningar þó aug­ljós. Það verður allra tap,“ skrifar Heið­rún að lokum.