Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir vafalaust að það megi deila hvar þau mörk eru þar sem gjaldtaka hins opinbera er farin að vinna gegn markmiðum sínum. Hins vegar er til fólk sem þykir gjaldtaka af nýtingu sjávarauðlindarinnar aldrei nógu há.
„En um það verður ekki deilt, að það eru útflutningsatvinnuvegirnir sem drífa hér áfram hagvöxt og góð lífskjör. Varanlegur útflutningsvöxtur er með öðrum orðum grundvöllur hagsældar. Það er því betur heima setið en af stað farið, ef gjaldtaka hins opinbera dregur úr þrótti útflutningsfyrirtækja til þess að skapa meiri verðmæti í dag en í gær,“ skrifar Heiðrún í Morgunblaðið en grein hennar birtist einnig á vef SFS.
„Hvað fyrir ráðherra vakir er óljóst”
Heiðrún rifjar þetta upp í tilefni af frumvarpsdrögum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.
„Líkt og margir þekkja tekur ríkið til sín þriðjung af afkomu fiskveiða í auðlindagjald. Fiskveiðar eru bæði áhættusamar og fjárfrekar. Það þarf mikla fjármuni til þess að tryggja tekjuvöxt, samfélaginu öllu til hagsbóta. Sé litið til mikilla og nauðsynlegra fjárfestinga á umliðnum árum hefur góð afkoma verið nýtt skynsamlega. Nú virðist matvælaráðherra hins vegar telja rétt að hefta verulega þessa mikilvægu vegferð. Hvað fyrir ráðherra vakir er óljóst, en í öllu falli getur það ekki verið áframhaldandi mikilvægt framlag sjávarútvegs til hagvaxtar og góðra lífskjara.”
„Einhvers konar gjaldtökugræðgi virðist því miður hafa sótt að ráðherra. Ekki aðeins leggur ráðherra til breytingu á reiknireglu veiðigjalds af uppsjávarveiðum, heldur bætir hann um betur og leggur að auki til hækkun tekjuskatts á sjávarútvegsfyrirtæki og uppboð aflaheimilda til eins árs í senn. Auðlindagjaldið á því að sækja úr þremur ólíkum áttum! Svo virðist sem ráðherra telji að unnt sé að greiða margsinnis með sama peningnum,“ skrifar Heiðrún.
„Verður allra tap“
Heiðrún segir að í gegnum alla vinnu við stefnumótun matvælaráðherra, undir heitinu Auðlindin okkar, hafi Svandísi verið tíðrætt um mikið samráð og mikilvægi gagnsæis. Það sé því miður ekki upplifun hagaðila, enda hafa öll samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og öll stéttarfélög fólks sem starfar í sjávarútvegi lýst hinu gagnstæða, segir Heiðrún.
„Tillaga um umfangsmikla breytingu á auðlindagjaldi í sjávarútvegi staðfestir upplifun þessara aðila. Tillagan var aldrei rædd í stefnumótunarvinnu matvælaráðuneytis, ekkert mat hefur verið lagt á það hver raunveruleg skattheimta verður ef þessi breyting nær fram að ganga og gjaldtaka af nýtingu sjávarauðlindar verður að líkindum, horft fram veginn, ógagnsærri en nokkru sinni fyrr.“
Heiðrún minnir ríkisstjórnina á að í stjórnarsáttmála var tekið fram að það væri sérstakt áherslumál að efla matvælaframleiðslu, þ. m. t. framleiðslu sjávarafurða, og skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi.
„Þá átti jafnframt að huga að aðgerðum til frekari árangurs Íslands á þessu sviði. Undir þetta má taka, enda er stóra verkefnið að tryggja hagsæld hér á landi.Hvergi var í stjórnarsáttmála vikið að verulegri hækkun eða eðlisbreytingu á gjaldtöku í sjávarútvegi. Verður því ekki á annan veg ráðið en sótt hafi að matvælaráðherra áður óséð græðgi í gjaldtöku.“
„Einföldu veiðigjaldi var í einu vetfangi umturnað í þríhöfða þurs með blöndu veiðigjalds, tekjuskatts og uppboða. Það hlýtur að teljast sanngjörn og eðlileg krafa að ráðherra geri grein fyrir áhrifum þessa á samkeppnishæfni, verðmætasköpun og starfsskilyrði sjávarútvegs, bæði til lengri og skemmri tíma litið. En líklega er niðurstaða þeirrar greiningar þó augljós. Það verður allra tap,“ skrifar Heiðrún að lokum.