Nýsköpunartæknifyrirtækið Glaze hefur tryggt sér eina milljón evra, eða um 150 milljónir króna, í fjármögnun frá Brunni Ventures. Fjármögnunin verður nýtt til að hefja sölu- og markaðsstarf á lausn Glaze á alþjóðlegum vettvangi auk þess að styðja við vöruþróun, að því er segir í fréttatilkynningu.
Glaze er afgreiðslulausn fyrir upplifunarfyrirtæki, tónleikastaði, bari, kaffihús, ferðaþjónustu og gistingu. Markmið nýsköpunarfyrirtækisins er að „umbylta“ upplifun gesta, eyða biðröðum og auka hagræði rekstraraðila.
Sérstaða Glaze er sögð felast meðal annars í því að rekstraraðilar geti byrjað að taka á móti pöntunum á nokkrum mínútum í kerfi Glaze og gestir geta pantað hvaðan sem er. Glaze leggst ofan á eldri kerfi sem rekstraraðilar nota, svo sem bókhalds eða birgðakerfi. „Því er innleiðing Glaze mun einfaldari en með öðrum lausnum á markaði.“
„Við erum himinlifandi með að hafa fengið Brunn Ventures sem samstarfsaðila í vegferðina okkar,“ segir Arnþór Ingi Hinriksson, framkvæmdastjóri Glaze. „Þessi fjárfesting er til vitnis um dugnað teymisins og gífurlega möguleika tækninnar okkar. Með stuðningi Brunns munum við halda áfram að stækka viðskiptavinahópinn og knýja fram nýsköpun í þjónustu og upplifunargeiranum."
„Glaze er sterkt og reynslumikið teymi með nýja og ferska sýn á þjónustuupplifun,“ segir Soffía Theódóra Tryggvadóttir, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures. „Við erum hrifin af framtíðarsýn Glaze, vöruframboði og teymi og erum fullviss um getu Glaze til að skila árangri fyrir sína viðskiptavini.“