Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors mun segja upp meira en þúsund starfsmönnum innan hugbúnaðar- og þjónustusviðs fyrirtækisins um allan heim. WSJ greinir frá málinu en hópuppsögnin nær til 600 starfsmanna á Detroit-svæðinu.
Ákvörðunin kemur í kjölfar ráðninga tveggja fyrrum Apple-stjórnenda sem munu taka yfir stafræna þætti innan GM.
Á undanförnum árum hefur fyrirtækið ráðið þúsundir starfsmanna í hugbúnaðardeild sína en bílaframleiðendur stefna að því að þróa snjallari farartæki sem hægt verður að uppfæra eins og snjallsíma.
„Meðan við byggjum upp framtíð GM verðum við að einblína á hraða og yfirburði, taka djarfar ákvarðanir og forgangsraða fjárfestingum sem munu hafa sem mest áhrif,“ segir talsmaður GM.
Árið 2022 sagði GM að það myndi ráða átta þúsund tæknimiðaða starfsmenn til að stýra sviðum rafbíla, hugbúnaðar og sjálfkeyrandi bíla.