General Motors hefur skrifað undir margra milljarða dala samning við norska fyrirtækið Vianode um rafskautsgrafít sem notað er í rafhlöður á rafbílum. Vianode mun útvega efnið til fyrirtækisins Ultium Cells, sameiginlegs fyrirtækis GM og LG Energy Solution.

Á vef WSJ segir að norska fyrirtækið muni byggja framleiðsluaðstöðu í Norður-Ameríku og verður efnið tilbúið til afhendingar frá og með 2027. Samningurinn verður þá í gildi til ársins 2033.

Rafskautsgrafít er stærsti íhlutur litíumrafhlaða miðað við þyngd og gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að afköstum og hleðslugetu. Verksmiðja Vianode er staðsett í Heroya í Noregi og hóf framleiðsla þar á seinni hluta síðasta árs.

Til þessa hefur Kína verið helsti útflutningsaðili á grafíti en landið hefur nýlega hert útflutning á efninu til Bandaríkjanna. Vianode segir þá einnig að framleiðsluaðferðir fyrirtækisins skilji eftir sig 90% minna kolefnisfótspor en hefðbundnar framleiðsluaðferðir.