S4S-samstæðan, sem rekur 12 verslanir á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri auk netverslunar, velti 5,4 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er mesta velta í sögu félagsins frá upphafi en til samanburðar velti félagið 4,8 milljörðum árið 2022. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 178 milljónum og dróst saman um 125 milljónir frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður nam 60 milljónum, samanborið við 194 milljónir árið áður.

Í fyrsta sinn frá upphafi varð tap af rekstri S4S en 32 milljóna tap varð af rekstri félagsins í fyrra. Árið áður hagnaðist það um 122 milljónir. Munaði þar mest um að kostnaðarverð seldra vara jókst úr 2,6 milljörðum í 3,2 milljarða á milli ára.

Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S, segir góða vörusölu en lága framlegð hafa einkennt síðasta ár. Þá hafi krefjandi markaðsumhverfi og hátt vaxtastig haft áhrif á reksturinn og kaupgetu viðskiptavina, sérstaklega á seinni hluta árs. Birgðastaða félagsins hafi verið endurskipulögð á árinu 2023, nýtt S4S Premium Outlet opnað í Holtagörðum og tveimur útsölu mörkuðum lokað í staðinn.

„Fórnarkostnaður þessarar endurskipulagningar birgða var töluvert minni framlegð og er það meginástæða þess að í fyrsta skipti frá stofnun skilar félagið tapi. Horfa verður á þessa aðgerð sem einskiptisaðgerð í endurskipulagningu á birgðastöðu,“ segir Pétur og bætir við að rekstraráætlun ársins 2024 geri ráð fyrir að birgðaleiðréttingin sé nú að mestu að baki og áfram sé stefnt að aðhaldi í kostnaði.

Framlegð aukist en umhverfið enn krefjandi

Framlegðin hefur að sögn Péturs aukist á fyrstu mánuðum þessa árs. Aftur á móti hafi hátt vaxtastig enn áhrif, þá sérstaklega á kaupgetu viðskiptavina. Samhliða hafi kostnaðarliðir á borð við laun og húsaleigu hækkað. Rekstrarumhverfi þessa árs sé því ekki síður krefjandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.