Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri beindi sjónum sínum að þjóðhagsvarúðartækjum sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða, á ársfundi bankans sem haldinn var í Hörpu í dag.

Hann sagði að umræðan um að Ísland hefði ekki lengur efni á þjóðhagsvarúð væri skammsýn og standist ekki skoðun í ljósi reynslu síðustu ára.

Ásgeir benti sérstaklega á góða afkomu bankakerfisins sem hafi náðst án aukinnar skuldsetningar:

„Þær raddir hafa orðið háværar að við sem þjóð höfum ekki efni á þjóðhagsvarúð sem hér hefur verið byggð upp undanfarin ár. Sagt er að íslenskir bankar búi við of miklar eiginfjárkvaðir og séu því ósamkeppnishæfir. Leiðirnar til þess að bæta úr þessu væru annaðhvort sameining banka eða að létta á kvöðum. Ég vil í þessu sambandi biðja fólk um að staldra aðeins við og líta aftur til síðustu fimm ára og hvernig hægt er að ná árangri í rekstri án þess að auka gírun og skuldsetningu í kerfinu.“

Hann nefndi að hreinar vaxtatekjur bankanna hafi aukist um 16% að raunvirði frá 2019 til 2024, úr 100 milljörðum eða svo í 150 milljarða, á sama tíma og rekstrarkostnaður hafi lækkað um 7 milljarða eða 17% að raunvirði.

Þannig hafi kostnaðarhlutfall bankanna, miðað við reglulegar tekjur, lækkað úr 57% 2019 í 43% á síðasta ári á meðan vaxtamunurinn hafi haldist sá sami.

„Þetta er ekkert annað en bylting í íslenskum bankarekstri. Því er heldur ekki að undra að arðsemi bankanna þriggja hafi verið helmingi betri hin síðustu fjögur ár en næstu fjögur ár þar á undan. Á árunum 2017 til 2020 var meðalarðsemi bankanna 5,7% en 11,7% á árunum 2021-2024,“ útskýrði Ásgeir í ávarpi sínu og bætti við:

„Góð afkoma og öflug þjóðhagsvarúð fara því saman.“

Ásgeir vitnaði síðan í lokaorð Birtings eftir Voltaire, í þýðingu Halldórs Laxness, um að „maður verði að rækta garðinn sinn.“

„Ég fæ ekki betur séð en að stóru bankarnir þrír hafi náð undraverðum árangri í gróðri og garðrækt á sínum eigin heimareitum á síðustu fimm árum - og jafnframt að ótal tækifæri séu enn til staðar,“ sagði Ásgeir og undirstrikaði að besti grunnurinn fyrir traustri arðsemi fjármálakerfisins til langs tíma væri hagstjórn sem tryggi stöðugleika.

„Kjarni málsins er þessi: Öflug þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit skapa stöðugri tekjur fyrir fjármálakerfið og minnka líkur á útlánatöpum og kollsteypum. Þjóðhagsvarúðartæki leggja þannig leikreglur sem koma í veg fyrir að samkeppni á lánamarkaði leiðist út í kapphlaup í því hver geri minnstu kröfurnar, líkt og raunin varð á árunum fyrir áfallið mikla 2008.

Því fylgir bæði ábyrgð og ábati að vera kerfislega mikilvægur banki í litlu kerfi sem hlýtur að endurspeglast í hærri eiginfjárkröfum.“

Varar við íhlutun hins opinbera

Ásgeir rakti þá staðreynd að eiginfjárkvaðir á fjórar íslenskar lánastofnanir sem lagðar eru á vegna sértækrar útlánaáhættu hefðu minnkað á síðustu árum. Ástæðu þess megi m.a. rekja til þess að lánabækurnar séu nú mun betur dreifðar og með minni samþjöppunaráhættu eftir að lán með veði í fasteignum hafa vaxið að umfangi.

„Þegar rykið hefur sest eftir þenslu og framboðsskort á fasteignamarkaði hef ég fulla trú á því að við sjáum áframhaldandi vöxt og viðgang fasteignalána bankanna með sambærilegum hætti og þekkist í nágrannalöndum og jafnframt að heimilin í landinu fái bestu möguleg kjör,“ sagði Ásgeir.

Hann varaði við íhlutun hins opinbera á fasteignamarkaði.

„Mjög mikilvægt er fyrir hið opinbera að styðja við þetta lánaform sem fjármagnað er annars vegar með innlánum og hins vegar með sértryggðum bréfum, fremur en að koma á fót nýju kerfi og/eða að standa fyrir umfangsmiklum lánveitingum með ríkisábyrgð. Hér ættu gengin spor að hræða þar sem einmitt nú stendur uppgjör á eignum Íbúðalánasjóðs fyrir dyrum með gríðarlegu tapi fyrir ríkissjóð.“

Hefja reglubundin gjaldeyriskaup

Undir lok ávarps síns tilkynnti Ásgeir að bankinn myndi hefja regluleg gjaldeyriskaup á innlendum millibankamarkaði á nýjan leik 15. apríl næstkomandi. Alls ætli bankinn að kaupa 6 milljónir evra, jafnvirði um 870 milljarða króna, í hverri viku.

Gjaldeyrisforðinn nemur nú um 865 milljörðum króna eða um 19% af landsframleiðslu. Við mat á æskilegri stærð forðans hefur Seðlabankinn horft til forðaviðmiðs AGS.

„Núverandi mat bankans er að neðri mörk forðans ættu ekki að vera undir 120% af því viðmiði. Gjaldeyrisforðinn hefur minnkað undanfarin ár og fjármögnun hans tekið stakkaskiptum, einkum eftir gjaldeyrissölu Seðlabankans í COVID-19 faraldrinum og vegna gjaldeyrisþarfar ríkissjóðs.“

„Í árslok 2024 jafngilti forðinn 118% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Horfur eru á að hann minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn sinnir fyrir ríkissjóð. Því telur Seðlabankinn að styrkja þurfi forðann,“ bætti Ásgeir við að lokum.