Cargo Express var stofnað árið 2008 og var fyrsta óháða fyrirtækið til að veita flugrekendum aðgang að íslenskum flugfraktmarkaði. Tekjur félagsins jukust um tæp 50% milli áranna 2021 og 2022 og tvöfölduðust milli áranna 2022 og 2023. Rekstrartekjur voru 1,3 milljarðar á síðasta ári og var hagnaðurinn 154 milljónir á móti 57 milljónum árið 2022.

„Það stefnir í góðar tölur á þessu ári, og við verðum líka yfir tölunum á þessu ári enda mikill vöxtur hjá okkur,“ segir Róbert Tómasson, forstjóri Cargo Express. Spurður hvað valdi þessum mikla vexti svarar Róbert að góðar flutningsleiðir skipti miklu máli sem og aukin framleiðsla í laxeldi.

„Við erum komnir með góðar flutningsleiðir, sérstaklega fyrir sjávarútveginn, og langmest flutt út af ferskum laxi eða hvítfiski. Við erum að vinna með sjö flugfélögum sem fljúga hingað, og erum við umboðsaðilar fyrir frakt fyrir þau.“

Róbert segir að mikilvægt sé fyrir fyrirtæki eins og Cargo Express að dreifa áhættunni.

„Við stækkuðum mikið á þeim tíma þegar WOW var og náðum næstum tveggja milljarða króna veltu árið 2017. Svo varð WOW gjaldþrota og við þurftum að skera niður eftir það, við vorum með mikið til allt hjá þeim, en við náðum að lifa það af. Síðan tók Play við og við bættum við öllum þessum flugfélögum og erum með sjö flugfélög núna. Auk Play þjónustum við flugfélögin Norwegian, Air Baltic, DHL Aviation, Finnair, United Airlines og Air Canada.“

Róbert segir að Cargo Express muni halda áfram að bjóða upp á sömu þjónustu og áður. Hann sér fyrir sér aukningu í netverslun auk þess sem mikill vöxtur sé í laxeldi.

„Þar sjáum við stærsta vaxtabroddinn.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.