Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 7.722 milljörðum í lok júní samkvæmt tölum frá Seðlabankanum en það samsvarar 173% af áætlaðri vergri landsframleiðslu þessa árs.
Sé tekið mið af yfirlitsskýrslu OECD um lífeyriskerfi aðildarríkjanna, sem nær fram til ársloka 2022, var Ísland í öðru sæti á eftir Danmörku (192% af VLF) þegar kemur að heildarumfangi þeirra eigna sem eyrnamerktar eru eftirlaunaþegum.
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka var fyrri árshelmingur mun hagfelldari fyrir íslenska lífeyrissjóði en síðustu tvö ár hafa að jafnaði verið.
„Þar munar mestu um verðhækkun á erlendum eignum þeirra samhliða meðvindi á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Þróunin frá júlíbyrjun hefur verið lakari en þó eru allgóðar líkur á að raunávöxtun ársins verði í þokkalegu samræmi við 3,5% viðmiðunarávöxtun skuldbindinga sjóðanna,” segir í greiningu bankans sem Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur bankans.
Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var jákvæð um hálft prósent að meðaltali á árinu 2023, samanborið við 12% neikvæða raunávöxtun árið 2022.
„Þótt innflæði inn í lífeyrissjóði vegna lífeyrisiðgjalda sé umtalsvert hærra en lífeyrisgreiðslur að viðbættum rekstrarkostnaði er bróðurpartur eignaaukningar sjóðanna til kominn vegna ávöxtunar af, og verðhækkunar á, eldri eignum þeirra. Má þar benda á að samkvæmt gögnum Seðlabankans voru lífeyrisiðgjöld að frádregnum lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði ríflega 89 ma.kr. á síðasta ári. Má gróflega áætla að ríflega helmingur þeirrar fjárhæðar (45-50 ma.kr.) hafi bæst við eignir sjóðanna á fyrri hluta þessa árs vegna slíks hreins innflæðis,” skrifar Jón Bjarki.
Þrír fjórðu hlutar eignavaxtar lífeyrissjóðanna var í erlendu eignasafni þeirra. Slíkar eignir námu 3.062 milljörðum króna í júnílok en það svarar til tæplega 40% af heildareignum sjóðanna.
Frá ársbyrjun til júníloka jókst virði slíkra eigna lífeyrissjóðanna um 319 milljarða og hlutfallið af heildareignum hækkaði um tvær prósentur.
„Þar sem fremur litlar breytingar hafa orðið á gengi krónu frá áramótum skrifast þessi eignaaukning að mestu á eignakaup og hækkun á virði þessa hluta eignasafnsins,” skrifar Jón Bjarki.
Samkvæmt Seðlabankanum námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða ríflega 36 milljörðum á fyrstu fimm mánuðum ársins sem samsvarar 7,3 milljörðum í mánuði hverjum á tímabilinu.
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka er það svipaður taktur og var að jafnaði í fyrra þegar gjaldeyriskaupin námu 6,9 milljörðum en nokkru minna en árið 2022 þegar þau námu 8,4 milljörðum.
„Eftir stendur þá að langstærstur hluti aukningarinnar í slíkum eignum skrifast á verðhækkun á alþjóðamörkuðum. Ólíkt Íslandi hefur árið 2023 í stórum dráttum verið gjöfult á erlendum hlutabréfamörkuðum, en langstærstur hluti erlendra eigna lífeyrissjóðanna er ýmist í formi hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum eða beinnar eignar á erlendum hlutabréfum,” skrifar Jón Bjarki.