Godo og ferðalausnirnar Booking Factory, Reserva og Caren hafa tekið höndum saman og munu framvegis starfa undir merkjum Flekaskil ehf. (GODO). Þetta kemur fram í tilkynningu frá Godo.
„Við sameininguna verður til eitt öflugasta hugbúnaðarfyrirtæki landsins á sviði ferðatækni,“ segir í tilkynningunni.
Nýsköpunarfyrirtækið Godo hefur starfað á sviði ferðatækni frá árinu 2013 og er nú með kjarnastarfsemi í 3 löndum.
Samkvæmt tilkynningunni munu lausnir Booking Factory, Reserva og Caren og þær þjónustur sem viðskiptavinir hafa nýtt vera óbreyttar.
„Það er okkur sönn ánægja að bjóða Booking Factory, Reserva og Caren velkomin til okkar. Með þessari sameiningu erum við enn betur í stakk búin til þess að auka við vöruframboðið í þágu ferðaþjónustunnar og styrkja þjónustu til viðskiptavina,“ segir Sverrir Steinn Sverrisson stjórnarformaður Godo í tilkynningu.
Höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis verða frá og með 1. september 2023 í skrifstofuhúsnæði Godo við Höfðabakka 9a í Reykjavík