Þrjú stærstu endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtæki landsins, Deloitte, KPMG og Pricewaterhouse Coopers (PwC), veltu alls tæplega 18 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Til samanburðar námu heildartekjur fyrirtækjanna þriggja 15,2 milljörðum rekstrarárið á undan og nam tekjuaukningin því 18%. Þá nam hagnaður félaganna alls 2,1 milljarði króna á síðasta rekstrarári og jókst um 25% frá fyrra rekstrarári.
Sé miðað við veltu var KPMG stærsta endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki landsins á síðasta rekstrarári. Tekjur félagsins námu tæplega 8,2 milljörðum króna og stóðu því undir 40% heildartekna fyrirtækjanna á tímabilinu. Félagið skilaði 783 milljóna hagnaði, og stóð því undir 38% af heildarhagnaði fyrirtækjanna á síðasta rekstrarári.
Velta Deloitte var litlu minni, eða 7,1 milljarður króna, á síðasta rekstrarári og stóð því undir 39% heildartekna fyrirtækjanna. Hagnaður félagsins nam svo rúmlega einum milljarði króna á tímabilinu, sem er 50% af heildarhagnaði fyrirtækjanna.
PwC er svo öllu minna í sniðum með 2,7 milljarða veltu og hagnað upp á 256 milljónir. Umrædd félög eru einu fyrirtækin í endurskoðunar- og ráðgjafargeiranum sem veltu meira en einum milljarði króna á síðasta rekstrarári.
Þess ber þó að geta að reikningsár félaganna eru mismunandi. Reikningsár Deloitte nær frá 1. júní til 30. maí, hjá PwC 1. júlí til 30. júní og loks frá 1. október til 30. september hjá KPMG.
Deloitte og KPMG fremst meðal jafningja
Tvö fyrirtæki juku veltu sína frá fyrra rekstrarári. Deloitte og KPMG juku veltu sína mest eða um 20%. Næst kom PwC með 8%.
Þá jókst hagnaður KPMG um 38%, úr 566 milljónum í 783. Hagnaður Deloitte jókst um 37% á milli rekstrarára, úr 752 milljónum króna í 1.032 milljónir. Aftur á móti dróst hagnaður PwC saman um 23%, úr 332 milljónum í 256 milljónir.
Þess ber þó að geta að í lok síðasta árs gengu kaup Deloitte á tilteknum eignum og rekstri Ernst & Young ehf. (EY). Með kaupunum stækkaði starfsmannahópur félagsins um nærri 70 manns. EY var fjórða stærsta endurskoðunar- og bókhaldsfélag landsins áður en félagið rann inn í Deloitte.
Þegar horft er til hlutfalls hagnaðar af tekjum var Deloitte fremst meðal jafningja með 14,6% hagnaðarhlutfall. Næst komu KPMG og PwC með 9,5% hagnaðarhlutfall.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.