Íslensk sprotafyrirtæki standa líklega frammi fyrir sínu besta fjármögnunarumhverfi til þessa en Davíð Örn Símonarson segir að fjármagn hafi sjaldan ef nokkurn tímann verið aðgengilegra. Fimm íslenskir vísisjóðir upp á rúma 40 milljarða króna hafa verið stofnaðir í ár og erlendir fjárfestar horfa í síauknum mæli til Íslands.

Crowberry Capital stofnaði í september stærsta vísisjóð Íslandssögunnar upp á tæpa 12 milljarða króna og býst við að fjárfesta honum til helminga á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Brunnur Ventures stofnaði 8,3 milljarða króna sjóðinn Brunnur II, Kvika eignastýring stofnaði 7,3 milljarða króna sjóðinn Iðunni, Frumtak stofnaði 7 milljarða króna sjóðinn Frumtak III og Eyrir Venture Management stofnaði 6 milljarða króna sjóðinn Eyrir Vöxtur.

Davíð Örn, framkvæmdastjóri og annar stofnenda stefnumótaforritsins Smitten, lauk nýverið 350 milljóna króna fjármögnun frá innlendum og erlendum vísisjóðum.

„Það hefur eiginlega aldrei verið betri tími fyrir íslenska frumkvöðla til að fara út í þessa skemmtilegu vegferð og stofna eitthvað nýtt," segir Davíð. Hann segir að svipaðar aðstæður hafi skapast árið 2015 þegar nokkrir vísisjóðir voru stofnaðir á sama tíma. Hins vegar fylgi slíku ákveðnir annmarkar þar sem fjárfestingatímabilum sjóðanna lýkur þá á svipuðum tíma og þannig geti skapast skortur á fjármagni um tíma. Því væri líklega betra fyrir nýsköpunarumhverfið ef einn til tveir nýir sjóðir væru stofnaðir á hverju ári. Á hinn bóginn hefur aðgengi að erlendum sjóðum einnig batnað og þar spilaði kórónuveirufaraldurinn inn í.

„Fyrir COVID þurfti maður yfirleitt að fara erlendis til að funda með erlendum sjóðum, allt frá Evrópu til San Francisco. Í dag er nær eingöngu fundað í gegnum Zoom og það breytir miklu fyrir frumkvöðulinn að geta tekið marga fundi á sama deginum við evrópska og bandaríska fjárfestingarsjóði. Að því leytinu er þetta mun betra en þetta var." Þá njóti Íslendingar einnig góðs af þeirri miklu velgengni sem norræn sprotafyrirtæki hafi náð á undanförnum árum, þar sem erlendir fjárfestar horfa í síauknum mæli til Norðurlandanna. Það sé jákvætt því á ákveðnum tímapunkti dugi innlent fjármagn ekki til áframhaldandi stækkunar.

„Þá ertu kominn í þannig upphæðir að það er erfitt fyrir einn eða tvo innlenda vísisjóði að halda því uppi," segir Davíð, en að auki geti erlendir sjóðir opnað á tengsl við nýja markaði líkt og með Danmörku og Lundúnir í tilviki Smitten. Erlendu sjóðirnir líta hins vegar á það sem ákveðinn gæðastimpil ef innlendir sjóðir hafa fjárfest í fyrirtækjunum á fyrri stigum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .