Fjárfestingarbankinn Goldman Sachs mun byrja að skera niður 3.200 störf á næstu dögum samkvæmt heimildarmönnum Financial Times og Wall Street Journal. Uppsagnirnar ná til tæplega 6,5% af 49 þúsund manna starfshópi bankans.

Hagræðingaaðgerðir Goldman eru umfangsmeiri en það sem helstu keppninautar hans hafa áformað. Í umfjöllun FT segir að það endurspegli að fjölgun starfsfólks hjá Goldman hafi verið tvöfalt hraðari en hin almenna þróun í bankaiðnaðinum frá ársbyrjun 2020, m.a. þar sem bankinn víkkaði út starfsemi sína.

Uppsagnirnar eru ekki jafn umfangsmiklar og upphaflega var talið en framkvæmdastjórn Goldman áætlaði í lok síðasta árs að segja upp allt að 3.900 manns eða um 8% starfsfólki.

Bankinn reynir nú að draga úr kostnaði vegna minni eftirspurnar í fjárfestingarbankastarfsemi ásamt því að draga úr umsvifum á viðskiptabankahlið sinni.