Golfhöllin hefur fest kaup á rekstri og búnaði Golffélagsins. Í framhaldi af því ætlar Golfhöllin að fjölga golfhermum í aðstöðu sinni við Fiskislóð 53 úti á Granda.

Golffélagið opnaði í nóvember 2020 þegar Covid var í fullum gangi. Um var að ræða svokallaða lyklalausa aðstöðu, þar sem fólk pantaði tíma á netinu og fékk sendan aðgangskóða. Dagur Þór Hilmarsson, stofnandi Golffélagsins, segir aðsóknina hafa verið ótrúlega í faraldrinum.

„Við opnuðum í miðjum faraldri, en aðstaðan innihélt þrjá herma og því höfðu fjöldatakmarkanir takmörkuð áhrif á fjöldann sem spilaði hjá mér. Á þessum tíma var pakkfullt frá opnun til lokunar og náðum við að festa ákveðna kúnnahópa í framhaldinu.“

Dagur segir nú góðan tímapunkt fyrir sig að selja félagið. Önnur verkefni, þar á meðal skyrútrás í Danmörku með skyrinu „Dóttir Skyr“, taki nú við.

„Ég vildi koma Golffélaginu í góðar og öruggar hendur. Þar koma Pétur og Golfhöllin inn í myndina.“

Upplifunin verður raunverulegri

Golfhermum hefur fjölgað talsvert á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum, sérstaklega á Covid-árunum 2020- 2022. Flestir þeirra eru frá danska fyrirtækinu TrackMan. Stór uppfærsla er á leiðinni frá félaginu sem kallast Virtual Golf 3.

„Þar verður stökkbreyting í myndgæðum, þannig að gæðin verða með ólíkindum og gera upplifunina enn raunverulegri,“ segir Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri Golfhallarinnar.

Til stendur hjá Golfhöllinni að setja upp golfgreiningarbúnaðinn ELVA Golf sem Helgi Hjálmarsson, fyrrum forstjóri og eigandi Völku, hefur verið að hanna ásamt sínu liði.

„Tækið er viðbót við kennsluprógrömmin í Trackman golfhermunum, og þarna bætast við myndavélar og nemar sem greina sveiflur hjá fólki á mun nákvæmari hátt en áður hefur verið gert, með aðstoð gervigreindar. Kennararnir okkar hafa kynnt sér tækið og telja þetta stórt skref fyrir golfþjálfun,“ bætir Pétur við.

Nánar er fjallað um kaup Golfhallarinnar á Golffélaginu í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.