Fasteignafélagið Reitir hefur gengið til samninga við Ríkiseignir um leigu á Nauthólsvegi 50 í Reykjavík, sem hýsti áður höfuðstöðvar Icelandair, undir rekstur hjúkrunarheimilis til næstu 20 ára.
Fasteignin er um 6.500 fermetrar að stærð og mun hýsa 87 hjúkrunarrými og tengda starfsemi, að því er kemur fram í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar.
Samningurinn leiðir til fjárfestingar af hálfu Reita upp á um 3,5 milljarða króna vegna breytinga á umræddri fasteign sem dreifist yfir næstu 18 mánuði, og verða fjármagnaðar úr sjóðum félagsins.
Fjárfestingin er sagður liður í vaxtarstefnu Reita og styðji við markmið um fjölgun nýrra eignaflokka.
„Fjárfesting Reita í hjúkrunarheimilum og öðrum tengdum innviðum er liður í samfélagslegri ábyrgð félagsins og stuðlar að nauðsynlegri uppbyggingu á hjúkrunarrýmum. Breytt aldursamsetning þjóðar og öldrun kallar á verulega aukningu slíkra rýma til þess að mæta áætlaðri eftirspurn næstu áratugi,“ segir í tilkynningu Reita.
„Með þátttöku sinni styður félagið við uppbyggingu mikilvægra innviða sem skipta sköpum fyrir velferð og heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.“

Reitir keyptu hið 6.500 fermetra skrifstofuhúsnæði að Nauthólsveg 50 af Icelandair fyrir 2,3 milljarða króna árið 2020.
Icelandair kláraði í lok síðasta árs að sameina starfsemi sína höfuðborgarsvæðinu, utan flugvallarstarfsemi, í nýju Icelandair húsi á Flugvöllum í Hafnarfirði. Húsnæðið er viðbygging við þjálfunarsetur Icelandair sem reist var árið 2014.