Alphabet, móðurfélag Google, tilkynnti í morgun að það hygðist fækka 12 þúsund störfum hjá sér. Það samsvarar um 6% af starfsmannafjölda samstæðunnar á heimsvísu. Um er að ræða stærstu uppsagnarlotu í sögu fyrirtækisins. Wall Street Journal segir frá.
„Á undanförnum tveimur árum upplifðum við tímabil af gríðarlegum vexti. Til að mæta því og styðja við aukinn vöxt fjölguðum við starfsfólki í samræmi við aðrar efnahagslegar aðstæður en þær sem við stöndum frammi fyrir í dag,“ sagði Sundar Pichai, forstjóri Alphabet, í bréfi til starfsmanna.
Stór alþjóðleg tæknifyrirtæki hafa á undanförnum dögum og vikum tilkynnt um umfangsmiklar hópuppsagnir. Fyrr í vikunni tilkynnti Microsoft að það hefði ákveðið að segja upp 10 þúsund manns. Amazon tilkynnti einnig nýlega um að það myndi fækka 18 þúsund störfum hjá sér og Meta, móðurfélag Facebook, ákvað að segja upp um 11 þúsund manns.