Að sögn fréttamiðilsins BBC er Google nýjasta bandaríska fyrirtækið til að gefast upp á DEI (e. Diversity, Equity and Inclusion)-ráðningarstefnu sinni sem snýr að því að ráða meira jaðarsett fólk.

Ákvörðun Google kemur í kjölfar árlegrar endurskoðunar á stefnu fyrirtækisins en tæknirisinn er einnig að endurskoða aðrar áætlanir sem tengjast DEI.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og stuðningsmenn hans hafa reglulega gagnrýnt DEI og hafa fjölmargar ríkisstofnanir þurft að víkja frá slíkum ráðningarstefnum frá því Trump sneri aftur til Hvíta hússins.

Milli 2021 og 2024 var farið vel yfir fjölbreytileikastefnu Google í fjárfestaskýrslum fyrirtækisins. Tæknirisinn hafði þá sýnt DEI mikinn stuðning, sérstaklega eftir morðið á George Floyd árið 2020 og mótmælin sem fylgdu í kjölfarið.

Á þeim tíma setti framkvæmdastjóri Google, Sundar Picahi, fram fimm ára markmið um að fjölga leiðtogum fyrirtækisins sem komu frá jaðarsettum hópum um 30%.