Aðaldagskrá Iceland Innovation Week var birt í gær og eru þátttakendur frá meðal annars Google, Microsoft, Snapchat, NATO Innovation Fund og UN World Food Programme væntanlegir til landsins á hátíðina sem fer fram dagana 13-17. maí.

Nýsköpunar- og frumkvöðlahátíðin fer fram í fimmta sinn en hún var stofnuð af þeim Eddu Konráðsdóttur og Melkorku Sigríði Magnúsdóttur árið 2020.

Hátíðin er markaðsgluggi íslenskrar nýsköpunar þar sem frumkvöðlum, stofnunum og fyrirtækjum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum og kynna starfsemi sína. Búist er við yfir þúsund gestum á aðaldagskrá hátíðarinnar sem fer fram 15.-16. maí í Kolaportinu.

„Dagskránni í ár er ætlað að draga fram íslenskar áherslur í nýsköpun. Erindi og pallborðsumræður leggja áherslu á heilsutækni, grænar lausnir, fjárfestingar og leikjaiðnaðinn. Við erum ótrúlega spennt að bjóða fyrirlesara frá stærstu tæknifyrirtækjunum í Silicon Valley velkomna ásamt þekktum frumkvöðlum frá heitustu sprotafyrirtækjunum heims,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, listrænn stjórnandi Iceland Innovation Week.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Meðal þátttakenda verða Nille Skaltz stofnandi B-Corp sem stendur á bak við bestu sjálfbærnivottanir heims. Anna Lee stofnandi sprotafyrirtækisins Lioness og Erla Björns svefnfræðingur munu ræða áhrif kynlífs og svefns á kvenheilsu. Rafael Barroso, englafjárfestir, mun segja ótrúlega sögu frá því þegar hann flúði glæpagengi í Mexíkó og vann sig upp í stjórnunarstöðu hjá Apple.

Þá mun Víðir Reynisson frá Almannavörnum taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fulltrúum frá HS Orku og Friðriki Guðjónssyni, frumkvöðli.

„Fulltrúar frá fjölmörgum erlendum fjárfestasjóðum eru einnig væntanlegir til landsins en við sjáum skýra aukningu í sprotafyrirtækjum sem hafa verið að fá erlenda fjárfestingu í kjölfar hátíðarinnar,“ segir Melkorka jafnframt.