Google undirritaði í vikunni einn fyrsta viðskiptasamning í heimi um kjarnasamruna við kjarnorkufyrirtækið Commonwealth Fusion Systems. Sprotafyrirtækið er stutt af tæknisjóði Bill Gates, Breakthrough Energy Ventures, og stefnir á kjarnorkuframleiðslu á næstu árum.
Á vef WSJ segir að kjarnasamruni, sem er þegar léttar frumeindir sameinast og losa mikið magn orku með því að mynda stærri kjarna, hafi aldrei áður verið notaður í orkuframleiðslu í atvinnuskyni.
Samningurinn felur í sér framleiðslu á 200 MW af orku, sem gæti séð 75 þúsund heimilum fyrir orku, fyrir atvinnuorkuver í Virginíuríki. Með samkomulaginu myndi Google fá rúmlega helminginn af orkuframleiðslu frá verinu og gæti fyrirtækið keypt enn meiri orku í framtíðinni frá fleiri orkuverum.
Stórfyrirtæki hafa undanfarin ár byrjað að leita til annarra orkugjafa til að knýja starfsemi sína í náinni framtíð. Árið 2023 undirritaði Microsoft til að mynda svipaðan samning við Helion Energy um 50 MW af orku og er áætlað að framleiðsla hefjist árið 2028.