Google-hugbúnaðarsamsteypan og ríkisstjórn Ástralíu hafa tekið upp samstarf um nýtingu nýstárlegrar aðferðar við jarðvarmanýtingu, svokallaða EGS-tækni (Enhanced Geothermal Energy).
Aðferðin byggist á því að vatni er dælt niður á dýpi þar sem varmastigið hitar það og flytur það á ný upp á yfirborðið í formi gufu – frekar en að borað sé eftir vatni sem þegar hefur hitnað.
Velgjörðarsvið Google ætlar að leggja rúmlega tíu milljónir dollara í verkefnið, en þar af eru 6,25 milljónir fjárfesting í AltaRock Energy og fjórar í Potter Drilling, en einnig rennur tæplega hálfrar milljónar dollara styrkur til jarðvísindastofnunar við Southern Methodist University. Sambærilegar rannsóknir hafa farið fram víða um heim og er tæknin ýmist kölluð „Hot Dry Rock“ eða „Hot Fractured Rock“.
Í frétt GreenBiz.com segir að Google hafi gagnrýnt bandarísk stjórnvöld fyrir að draga lappirnar í jarðvarmamálum, en framlög alríkisstjórnarinnar til þessa sviðs nema aðeins tvöfaldri þeirri upphæð sem Google leggur nú fram. Slagorð verkefnis Google er „Endurnýjanleg orka – ódýrari en kol.“
Miklar orkulindir eru taldar búa í jarðvarma og gætu þær annað margfaldri núverandi orkuþörf mannkyns fullnýttar, hefur Greenbiz eftir upplýsingum frá Massachusetts Institute of Technology. Í nýlegri skýrslu MIT segir að 2% hitans á 3-10 kílómetra dýpi í Bandaríkjunum nemi meira en 2.500-faldri núverandi orkunotkun landsins. Svipað magn er um að ræða í áströlskum jarðvarmalindum.
Ríkisstjórn Ástralíu hyggst verja sem nemur 42 milljónum Bandaríkjadala til að þróa jarðvarmaverkefni og borholur þar sem margs konar tækni er beitt. Samkvæmt frétt Reuters gæti fyrsta jarðvarmavirkjunin með almenna raforkuframleiðslu verið komin í gagnið innan fjögurra til fimm ára.