Miklar sviptingar eru á fylgi flokkanna í borginni samkvæmt nýrri könnun Gallup, sem Viðskiptablaðið hefur greint frá.
Framsóknarflokkurinn mælist með einungis 3,3% fylgi, sem er svo sem svipað og hann var með í könnun Gallup í október þegar hann mældist með 3,5%. Fylgi Framsóknarflokksins hefur verið á stöðugri niðurleið síðan í kosningunum 2022 þegar hann fékk 18,7% og 4 borgarfulltrúa kjörna eins og áður sagði.
Píratar hafa í gegnum árin verið nokkuð sterkir í borginni, sem dæmi fékk flokkurinn 11,6% atkvæða í kosningunum 2022. Í fjórum könnunum Gallup á síðasta ári mældist flokkurinn með 10,4 til 12,1% fylgi í borginni. Í könnunni sem gerð var nú í janúar hrynur fylgi flokksins niður í 4,4%, sem þýðir að flokkurinn fengi 1 borgarfulltrúa kjörinn.
Misjöfn gæfa meirihlutans
Það er nokkuð áhugavert að staða Samfylkingarinnar og Viðreisnar er allt önnur en staða Framsóknar og Pírata. Samkvæmt nýju könnunni mælist Samfylkingin með 22,9% en í fjórum könnunum Gallup á síðasta ári var fylgi Samfylkingarinnar 24,4 til 27,8%. Fylgi Samfylkingarinnar er því að dala en er þó enn meira en það var í kosningunum 2022 þegar flokkurinn fékk 20,3% atkvæða. Samkvæmt könnunni bætir flokkurinn við sig einum borgarfulltrúa, fer úr 5 í 6.
Viðreisn fékk 5,2% atkvæða í kosningunum 2022. Á síðustu tólf mánuðum hefur flokkurinn verið smám saman verið að auka fylgið og mælist það nú 11%. Samkvæmt því fengi flokkurinn 3 borgarfulltrúa kjörna en er með 1 í dag.
Þegar rýnt er í niðurstöðurnar, og þá sérstaklega fylgi meirihlutaflokkanna í borginni, er freistandi að líta svo á að landsmálin hafi að einhverju leiti smitast inn í borgarstjórn. Í alþingiskosningunum í nóvember unnu bæði Samfylkingin og Viðreisn kosningasigur en Framsóknarflokkur og Píratar guldu afhroð.
Græni veggurinn eða græna gímaldið
Skipulagsmálin hafa einnig verið í brennidepli undanfarna mánuði og þá sérstaklega bygging stærðarinnar vöruhúss í Breiðholti. Þetta er hús sem minnihlutinn hefur kallað græna gímaldið eða græna vegginn. Ástæðan fyrir því er að húsið skyggir verulega á útsýni íbúa í fjölbýlishúsi við Árskóga.
Þetta mál hefur reynst meirihlutanum erfitt eða að minnsta kosti Framsóknarflokknum og Pírötum. Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins, hefur átt í vök að verjast í málinu, sem og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður skipulags- og skipulagsráðs borgarinnar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.