Lokagildi úrvalsvísitölunnar OMXI15 var 2500,79 stig eftir um 41 stigs hækkun í viðskiptum dagsins.
Vísitalan hefur nú hækkað um rúm 10% frá miðjum septembermánuði. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að lækka stýrivexti um 25 punkta í morgun og var grænt yfir Kauphöllinni í kjölfarið.
Hlutabréfaverð Ísfélagsins leiddi hækkanir á aðalmarkaði er gengi félagsins fór upp um 5% í 169 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Ísfélagsins nam 162,4 krónum.
Hlutabréfaverð Iceland Seafood International hækkaði einnig um tæp 5% á aðalmarkaði. Gengi félagsins hefur tekið við sér síðastliðnar vikur eftir að hafa lækkað töluvert á árinu.
Gengi ISI fór niður í 4,84 krónur um miðjan septembermánuð sem var lægsta gengi í sögu félagsins. Gengið hefur hækkað um rúm 10% síðan þá og var 5,35 við lokun markaða í dag.
Töluverð velta var með bréf Arion banka og Kviku banka en hlutabréfaverð fyrrnefnda bankans hækkaði um 4% í 1,2 milljarða króna veltu.
Gengi Kviku fór upp um 3% í 1,6 milljarða króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Eimskips lækkaði um rúmt 1% en ætla má að átök í Miðausturlöndum með tilheyrandi verðhækkunum á olíu hafi haft einhver áhrif þar.
Viðsnúningur varð á gengi Icelandair í dag eftir um 39% hækkun síðastliðinn mánuð. Gengi flugfélagsins lækkaði um 0,41% í um 173 milljón króna viðskiptum.
Verðið á Brent hráolíu, sem er meðal annars notuð í eldsneyti rauk upp í morgun, en hefur síðan lækkað með deginum.