Grænlenska frumkvöðlafyrirtækið Arctic Ice hefur tekið upp á því að skera ís úr fjörðum Grænlands og flytja hann síðan til Sameinuðu arabísku furstadæmanna þar sem klakinn endar í glösum á dýrum börum.
Malik V Rasmussen, stofnandi fyrirtækisins, segir að ísinn, sem hefur verið þjappaður saman í árþúsundir, sé algjörlega bólulaus og bráðni mun hægar en venjulegur ís. Það er líka hreinna en frosna vatnið sem notað er í klökum í Dúbaí.
Arctic Ice var fyrst stofnað árið 2022 en samkvæmt fréttamiðlinum Guardian þá var það ekki fyrr en nýlega sem fyrirtækið flutti út sín fyrstu 20 tonn af klaka. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins hefur ísinn ekki komist í snertingu við jarðveg eða mengun í 100 þúsund ár og er því hreinasta vatn sem fæst á jörðinni.
Fyrirtækið hefur þó þurft að þola mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og hafa margir ásakað Rasmussen um óþarfa mengun. „Ættir þú ekki að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar frekar en að selja jökulvatn,“ spyr einn. Önnur einkaskilaboð hafa farið enn lengra og lýsir Rasmussen þeim sem hálfgerðum líflátshótunum.
Arctic Ice heldur því hins vegar fram að ísinn sé umhverfisvænn og hafi félagslegt gildi. Firðirnir í kringum Grænland eru yfirleitt fullir af ísjökum sem hafa brotnað af Grænlandsjökli.
Fyrirtækið rekur sérstakan bát með krana sem fer inn í Nuup Kangerlua, fjörðinn umhverfis Nuuk, til að leita að ákveðinni ístegund sem hefur hvorki komist í snertingu við botn né topp jökulsins.
Þegar búið er að finna góðan bita taka þeir hann upp með krananum og setja hann í bláa plastbala og sigla síðan aftur til Nuuk þar sem balarnir fara í frystigám. Eimskip flytur síðan gáminn til Danmerkur þar sem hann fer um borð í annað skip sem fer með það til Dúbaí. Þar er ísinn seldur ef dreifingaraðilanum Natural Ice á bari og veitingastaði.