Grafa og grjót ehf., sem sérhæfir sig í jarðvegsvinnu, hefur náð samkomulagi um kaup á fyrirtækinu Steingarði. Skilað var inn samrunatilkynningu vegna viðskiptanna til Samkeppniseftirlitsins fyrir tveimur vikum síðan.
Steingarður er í fullri eigu Ellerts Jónssonar sem gegnir jafnframt stöðu framkvæmdastjóra. Fyrirtækið velti 300 milljónum árið 2020 og 460 milljónum árið áður, samkvæmt síðasta ársreikningi sem skilað var inn til Skattsins. Hagnaður félagsins nam 13 milljónum árið 2020. Eignir voru 302 milljónir og eigið fé 239 milljónir í árslok 2020. Helstu verkefni sem Steingarðar fást við tengjast heimtaugalögnum, rafmagni, ljósleiðara ásamt gatna- og lóðagerð.
Sjá einnig: Framtakssjóður kaupir Gröfu og grjót
Framtakssjóðurinn Umbreyting, sem er í rekstri Alfa Framtaks, keypti í fyrra ráðandi hlut í Gröfu og grjóti af stofnandanum Sigurði Sveinbirni Gylfasyni. Umbreyting fer nú með 60% hlut í félaginu á móti Sigurði. Grafa og grjót velti 1,2 milljörðum króna og hagnaður nam 107 milljónum árið 2020. Eignir voru 629 milljónir í árslok 2020 og eigið fé 94 milljónir.
Umbreyting hefur einnig fjárfest í Borgarplasti og Plastgerð Suðurnesja, Greiðslumiðlun Íslands, Nox Medical auk Málmssteypu Þorgríms Jónssonar.