Danske bank, stærsti banki Dan­merkur, hefur ákveðið að greiða hlut­höfum 5,5 milljarða danskra króna eða um 107 milljarða ís­lenskra króna í arð.

Arð­greiðslan kemur til vegna sölu bankans á einka­bankaþjónustu sinni í Noregi til Nor­dea en sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu bankans í dag losar salan um 5,5 milljarða danskra króna sem bankanum þykir rétt að greiða til hlut­hafa.

Hlut­hafar bankans eiga von á því að arð­greiðslan muni eiga sér stað 11. desember eða um tveimur vikum fyrir jól.

Danske bank býst við að eigið fé bankans muni lækka um 0,3% við arð­greiðsluna.