Eim­skip hefur á árinu þurft að greiða hlut­falls­lega hærra svo­kallað ETS-gjald fyrir að sigla milli Ís­lands og Evrópu en greitt er fyrir að sigla frá Evrópu til Bandaríkjanna.

ETS (e. Emissions Tra­ding Sy­stem) er við­skipta- og losunar­kerfi sem nær til alls EES-svæðisins.

Hlut­fall gjald­tökunnar á leiðum milli Ís­lands og Evrópu hækkaði úr 40 pró­sentum í 70 pró­sent á árinu og mun hækka í 100 pró­sent árið 2026.

Á sama tíma munu skip sem fara milli ESB og Bandaríkjanna aðeins greiða 50 prósent ETS-gjald.

Eðli málsins sam­kvæmt hefur þetta áhrif á íslenskt atvinnulíf enda er Ís­land háð sjóflutningum í nær öllum út- og inn­flutningi.

Í árs­hluta­upp­gjöri Eim­skips kemur fram að hækkunin hafi þegar aukið kostnað félagsins.

ETS-gjaldið hækkaði um 0,6 milljónir evra á milli ára þrátt fyrir að bun­ker­kostnaður, þ.e. elds­neytisút­gjöld, hafi lækkað um 2,9 milljónir evra vegna lægra heims­markaðsverðs og minni notkunar.

Bunker og ETS kostnaður Eimskips nam 27,5 milljónum evra á fyrri árshelmengi.

Samtök at­vinnulífsins (SA), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sam­eigin­legri um­sögn til fram­kvæmda­stjórnar ESB þar sem varað er við að fyrir­hugaðar breytingar á við­skipta­kerfi ESB með losunar­heimildir (ETS) muni leggja ósann­gjarnan og hlut­falls­lega meiri kostnað á ís­lenskt at­vinnulíf en á mörg önnur lönd.

Á næsta ári munu ís­lensk skipafélög þurfa að greiða 100% ETS-gjald á leiðum milli Ís­lands og Evrópu­sam­bandsins og 50% milli Ís­lands og Bandaríkjanna.

Á sama tíma munu skip sem fara milli ESB og Bandaríkjanna greiða aðeins 50% ETS-gjald.

Sam­kvæmt Evrópu­sam­bandinu er það því verra fyrir um­hverfið þegar Eim­skip siglir til Evrópu en þegar skip frá Evrópu fara yfir At­lants­hafið til Bandaríkjanna.

Hags­muna­samtök at­vinnulífsins hafa sagt þetta gefa er­lendum keppi­nautum ósann­gjarnt sam­keppnis­for­skot. Þá getur þetta hækkað flutnings­kostnað og jafn­vel aukið kol­efnislosun vegna breytinga á flutninga­leiðum.

Fyrir­tæki sem falla undir kerfið þurfa að skila losunar­heimildum (EUA) til yfir­valda í takt við kol­tvísýrings­losun sína á ári hverju.

Eim­skip leggur sér­stakt ETS-álag á farm í samræmi við meðal­verð losunar­heimilda.

Fyrir­tækið upp­færir gjaldið mánaðar­lega eftir meðal­verði losunar­heimilda síðustu 30 daga. Þannig er hluti kostnaðarins færður beint yfir á við­skipta­vini félagsins.

Í um­sögn hags­muna­sam­taka ís­lenska at­vinnulífisins til ESB segir að núverandi og fyrir­huguð út­færsla ETS muni auka kostnað fyrir sjóflutninga, flug og orku­frekan iðnað um­fram það sem sé sann­gjarnt, með neikvæðum áhrifum á sam­keppnis­hæfni, út­flutning, inn­flutning og ferðaþjónustu.

Ef ekkert verður að gert gæti þetta skaðað bæði efna­hags­legan stöðug­leika og alþjóða­tengsl Ís­lands til framtíðar.