Eimskip hefur á árinu þurft að greiða hlutfallslega hærra svokallað ETS-gjald fyrir að sigla milli Íslands og Evrópu en greitt er fyrir að sigla frá Evrópu til Bandaríkjanna.
ETS (e. Emissions Trading System) er viðskipta- og losunarkerfi sem nær til alls EES-svæðisins.
Hlutfall gjaldtökunnar á leiðum milli Íslands og Evrópu hækkaði úr 40 prósentum í 70 prósent á árinu og mun hækka í 100 prósent árið 2026.
Á sama tíma munu skip sem fara milli ESB og Bandaríkjanna aðeins greiða 50 prósent ETS-gjald.
Eðli málsins samkvæmt hefur þetta áhrif á íslenskt atvinnulíf enda er Ísland háð sjóflutningum í nær öllum út- og innflutningi.
Í árshlutauppgjöri Eimskips kemur fram að hækkunin hafi þegar aukið kostnað félagsins.
ETS-gjaldið hækkaði um 0,6 milljónir evra á milli ára þrátt fyrir að bunkerkostnaður, þ.e. eldsneytisútgjöld, hafi lækkað um 2,9 milljónir evra vegna lægra heimsmarkaðsverðs og minni notkunar.
Bunker og ETS kostnaður Eimskips nam 27,5 milljónum evra á fyrri árshelmengi.
Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sameiginlegri umsögn til framkvæmdastjórnar ESB þar sem varað er við að fyrirhugaðar breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) muni leggja ósanngjarnan og hlutfallslega meiri kostnað á íslenskt atvinnulíf en á mörg önnur lönd.
Á næsta ári munu íslensk skipafélög þurfa að greiða 100% ETS-gjald á leiðum milli Íslands og Evrópusambandsins og 50% milli Íslands og Bandaríkjanna.
Á sama tíma munu skip sem fara milli ESB og Bandaríkjanna greiða aðeins 50% ETS-gjald.
Samkvæmt Evrópusambandinu er það því verra fyrir umhverfið þegar Eimskip siglir til Evrópu en þegar skip frá Evrópu fara yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna.
Hagsmunasamtök atvinnulífsins hafa sagt þetta gefa erlendum keppinautum ósanngjarnt samkeppnisforskot. Þá getur þetta hækkað flutningskostnað og jafnvel aukið kolefnislosun vegna breytinga á flutningaleiðum.
Fyrirtæki sem falla undir kerfið þurfa að skila losunarheimildum (EUA) til yfirvalda í takt við koltvísýringslosun sína á ári hverju.
Eimskip leggur sérstakt ETS-álag á farm í samræmi við meðalverð losunarheimilda.
Fyrirtækið uppfærir gjaldið mánaðarlega eftir meðalverði losunarheimilda síðustu 30 daga. Þannig er hluti kostnaðarins færður beint yfir á viðskiptavini félagsins.
Í umsögn hagsmunasamtaka íslenska atvinnulífisins til ESB segir að núverandi og fyrirhuguð útfærsla ETS muni auka kostnað fyrir sjóflutninga, flug og orkufrekan iðnað umfram það sem sé sanngjarnt, með neikvæðum áhrifum á samkeppnishæfni, útflutning, innflutning og ferðaþjónustu.
Ef ekkert verður að gert gæti þetta skaðað bæði efnahagslegan stöðugleika og alþjóðatengsl Íslands til framtíðar.