Tengi, sem selur m.a. ýmis tæki fyrir eldhús og baðherbergi, hagnaðist um 188 milljónir króna á síðasta ári en árið áður nam hagnaður 269 milljónum. Velta félagsins nam rúmlega 3,4 milljörðum og jókst um 440 milljónir, eða um 15%.
Hagnaðarhlutfall, þ.e. hlutfall hagnaður af veltu, nam því 5,5%. Framlegð nam 1,2 milljörðum og jókst um 4% á milli ára.
Eignir félagsins námu 1,4 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé 818 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 57% í lok árs 2023.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að
Tekjuaukningin hafi verið jöfn yfir allt árið. Hátt vaxtastig og verðbólga hafi haft sýnileg áhrif á kaupendahópinn, en hlutfall fagaðila í viðskiptum hafi aukist og viðskipti hins almenna neytanda dregist saman. Vöruhúsið sem tekið var í notkun árinu 2022 hafi sannað gildi sitt á árinu með betra vöruflæði og yfirsýn.
Anna Ásgeirsdóttir er stærsti eigandi Tengi með 52% hlut. Þórir Sigurgeirsson á 30% hlut, Guðrún Freyja Sigurjónsdóttir 10% hlut og loks Drífa Sigurjónsdóttir 8% hlut. Stjórn félagsins lagði til að 100 milljónir króna yrðu greiddar í arð til hluthafa á árinu 2024. Sama upphæð var greidd út í arð árin 2023 og 2022.