Bakarinn Reynir Þorleifsson var einn helsti frumkvöðull atvinnuuppbyggingar í Kópavogsdalnum á tíunda áratugnum. Frá 1994 hafði hann rekið handverksbakarí, brauðgerð og kaffihús undir skírnarnafni Reynis ásamt konu sinni.

Árið 2019 féll hann þó frá og tóku þá synir hans, Þorleifur Karl og Henrý Þór, við rekstrinum. Þeir bræðurnir lærðu báðir bakaraiðn hjá föður sínum ungir að árum og hafa meira og minna unnið við bakstur alla tíð.

Saga bakarísins hefst við Kleifarsel árið 1994 en þá keypti Reynir bakarí sem var staðsett inni í verslun Nóatúns í Seljahverfinu. Ári seinna opnaði hann bakarí á Dalvegi og stofnaði kennitöluna Reynir bakari.

Á þeim var fátt annað á Dalvegi en malarvegur og mýri og lítil sem engin starfsemi. Reynir horfði hins vegar fram á við þar sem hann hafði séð áætlanir Kópavogsbæjar og sá hvað átti að byggja á svæðinu.

„Pabbi var í Landssambandi bakarameistara og það var bara hlegið að honum og honum sagt að gera þetta ekki. Það var búið að segja við mig persónulega að þetta væri bara vitleysa og var systir okkar bara stundum að sofna hérna í afgreiðslunni,“ segir Þorleifur.

Þegar bygging hófst á svæðinu í kring fór bakaríið hins vegar að sjá mun fleiri viðskiptavini og margir af þeim smiðum og pípurum sem byggðu Smáratorgið, Smáralind og nærliggjandi hverfi koma enn í dag við í bakaríinu áratugum seinna.

„Þeir iðnaðarmenn eru kannski að vinna úti í bæ í dag en koma alltaf hingað, þannig að það er alveg fastur kúnnahópur. Svo heyrum við um fólk sem kemur alla leið frá Seltjarnarnesi og þá eru foreldrar sem segja að börnin þeirra vilji bara snúðana sem fást hér.“

Rúnstykki og hrun

Þegar Reynir var búinn að reka bakaríið í tæp tvö ár fór Steypustöðin, sem átti húsnæðið, að íhuga sölu á rýminu. Synir hans segja frá því að Reynir hafði haft áhyggjur af því að leigan myndi hækka og ákvað því að bjóða í gómsætt tilboð.

„Hann átti ekki mikinn pening á þessum tíma, þannig að hann bauð einhverjar þrjár milljónir í húsið og gerði svo samning við Steypustöðina um að hann myndi líka sjá öllu starfsfólkinu fyrir kaffi og rúnstykkjum. Ég var í einhver tíu ár að skutla rúnstykkjum til þeirra og ég held að hann hafi borgað fyrir rúmlega 80% af rýminu í rúnstykkjum,“ segir Henrý.

Hann bætir við að eigandi Steypustöðvarinnar hafi verið allt annað en sáttur nokkrum árum seinna þegar hann áttaði sig loks á tapinu.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.