Greiðslumiðlunarrisarnir Visa og Mastercard hafa hætt við að stofna til nýrra samstarfa við rafmyntafyrirtæki í kjölfar nokkurra mála sem þótt hafa varpað skugga á trú fólks á rafmyntabransanum. Þetta herma heimildir Reuters.
Árið 2022 reyndist rafmyntum nokkuð erfitt. Tvö stór rafmyntafyrirtæki, FTX og BlockFi, sigldu í þrot. Við það minnkaði trú fjárfesta á rafmyntum, auk þess sem pressa jókst á stjórnvöld víða um heim að regluvæða rafmyntamarkaði í auknum mæli.
Sökum þessa hafa bæði Visa og Mastercard ákveðið að slá á frest útgáfu ýmissa vara og þjónustu tengda rafmyntum, a.m.k. þar til markaðsaðstæður og lagaumhverfi rafmynta batnar.