Hér á landi eru nær níu af hverjum tíu smásölugreiðslum framkvæmdar með greiðslukortum sem nýta erlenda innviði. Þetta kemur fram í grein sem Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands,“ ritar í Viðskiptablaðið.

Í grein Tómasar kemur fram að einsleitni í greiðslumiðlun skapi áhættu fyrir samfélagið og því hafi Seðlabankinn um nokkurra ára skeið kallað eftir aukinni fjölbreytni greiðsluleiða sem ásamt auknu þanþoli innviðanna getur aukið öryggi og viðnámsþrótt í miðlun fjármagns.

„Því miður eru horfur í alþjóðamálum slíkar að óverjandi er með öllu að gera ekki einhverjar slíkar ráðstafanir,“ skrifar Tómas.

Tómas segir að þegar greiðslukerfi treysti nánast alfarið á nettengingu geti rof í fjarskiptum haft alvarleg áhrif.

„Seðlabankinn hugar því að möguleikum þess að móta umgjörð til að tryggja að greiðslur með kortum geti farið fram án nettengingar.“

„Til þess að hægt sé að innleiða netlausar greiðslur hér á landi þarf aðkomu helstu hagsmunaaðila, þ.e. kortaútgefenda, færsluhirða og tækniþjónustuveitanda,“ skrifar Tómas. „Seðlabankinn er að hefja formlegt samtal við hagaðila, m.a. um tæknilega útfærslu, ábyrgð, umfang og kostnað. Stefnt er að því að lausn liggi fyrir innan árs.“

Hægt er að lesa greinina í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.