Hlutabréfaverð Spirit Airlines féll um 34% við opnun markaða eftir að The Wall Street Journal greindi frá því í gær félagið væri mögulega á leið í greiðslustöðvun. Gengi flugfélagsins stendur í kringum 1,6 dali þegar þetta er skrifað eftir örlitla hækkun.
Flugfélagið hefur verið í töluverðum vandræðum en stóð til að JetBlue Airways myndi kaupa allt hlutafé félagsins á 3,8 milljarða dali og halda þannig rekstrinum áfram.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákvað að stíga inn í samrunann og fékk honum hnekkt fyrir dómi þar sem því var haldið fram að samruninn myndi hamla samkeppni og leiða til hærri flugfargjalda.
„Þetta er fyrir ykkur“
Ráðuneytið og Joe Biden Bandaríkjaforseti fögnuðu niðurstöðunni sem sigri fyrir neytendur.
Dómurinn vakti mikla athygli vestanhafs, sér í lagi vegna þess að William Young, dómari í málinu, sendi bandarískum flugfarþegum bein skilaboð í úrskurði sínum.
„Spirit er lítið flugfélag en það eru margir sem elska það. Til tryggra viðskiptavina Spirit. Þetta er fyrir ykkur,“ skrifaði Young.
Gengi Spirit féll um 48% eftir dómsúrskurðinn og hefur flugfélagið aldrei náð vopnum sínum á ný.
Markaðsvirði félagsins var um 250 milljónir dala fyrir viðskipti dagsins en það stóð nærri 4 milljörðum dala árið 2021.