Hluta­bréfa­verð Spi­rit Air­lines féll um 34% við opnun markaða eftir að The Wall Street Journal greindi frá því í gær fé­lagið væri mögu­lega á leið í greiðslu­stöðvun. Gengi flug­fé­lagsins stendur í kringum 1,6 dali þegar þetta er skrifað eftir ör­litla hækkun.

Flug­fé­lagið hefur verið í tölu­verðum vand­ræðum en stóð til að Jet­Blu­e Airwa­ys myndi kaupa allt hluta­fé fé­lagsins á 3,8 milljarða dali og halda þannig rekstrinum á­fram.

Dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna á­kvað að stíga inn í sam­runann og fékk honum hnekkt fyrir dómi þar sem því var haldið fram að sam­runinn myndi hamla sam­keppni og leiða til hærri flug­far­gjalda.

„Þetta er fyrir ykkur“

Ráðu­neytið og Joe Biden Banda­ríkja­for­seti fögnuðu niður­stöðunni sem sigri fyrir neyt­endur.

Dómurinn vakti mikla at­hygli vestan­hafs, sér í lagi vegna þess að Willi­am Young, dómari í málinu, sendi banda­rískum flug­far­þegum bein skila­boð í úr­skurði sínum.

„Spi­rit er lítið flug­fé­lag en það eru margir sem elska það. Til tryggra við­skipta­vina Spi­rit. Þetta er fyrir ykkur,“ skrifaði Young.

Gengi Spi­rit féll um 48% eftir dóms­úr­skurðinn og hefur flug­fé­lagið aldrei náð vopnum sínum á ný.

Markaðs­virði fé­lagsins var um 250 milljónir dala fyrir við­skipti dagsins en það stóð nærri 4 milljörðum dala árið 2021.