Greinandi á íslenskum fjármálamarkaði telur góðar líkur á að samruni Arion banka og Íslandsbanka fái fram að ganga. Hann telur óvissuna helst snúa að tímalínu og hvaða skilyrðum samruninn yrði háður.

Stjórn Arion banka ákvað á föstudaginn að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna bankanna. Stjórn Íslandsbanka sagðist ætla að taka erindið til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans.

Arion nefndi í tilkynningunni að kostnaður fjármálakerfisins sé enn hlutfallslega hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Þá sé bankinn tilbúinn að vinna með Samkeppniseftirlitinu til að tryggja að 5 milljarðar króna að lágmarki, af þeim árlega sparnaði sem myndi nást fram við samruna bankanna, skili sér til neytenda.

40-140 milljarða virðisaukning

Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi Akkurs, birti viðbrögð sín við mögulegum samruna á heimasíðu greiningarfyrirtækisins í gærkvöldi. Þar segir hann að sameinaður banki sé „klárlega mun meira virði en í sitthvoru lagi“.

Miðað við þær forsendur sem hann gefur upp í bréfinu, segir Alexander að virðisaukning af samruna bankanna sé á bilinu 40-140 milljarðar króna.

„Það er því hluthöfum beggja banka, þ.m.t. íslenska ríkinu, til hagsbóta að samruninn eigi sér stað. Báðir bankar eru undirverðlagðir að mati Akkur en þar sem hluthafar Íslandsbanka fengju að fullu greitt með hlutabréfum í Arion banka fengju þeir líka að njóta ábatans.“

Hann bendir á að íslenska ríkið yrði stærsti hluthafinn í sameinuðum banka með ríflega 20% hlut. Þá megi færa rök fyrir því að það verði auðveldara að vekja áhuga erlendra fjárfesta á sameinuðum banka þegar það kemur að því að selja.

Málsmeðferðartíminn gæti tekið 24-36 mánuði

Sem fyrr segir telur Alexander góðar líkur á að samruni bankanna nái fram a ganga. Hann vísar til þess að Arion telji að samruni bankanna myndi uppfylla öll þrjú skilyrði leiðbeininga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um lárétta samruna. Umrætt skilyrði séu eftirfarandi:

  1. Ávinningur neytenda þarf að vera verulegur í formi lægra verðs, betri gæða eða aukinnar nýsköpunar og þarf að eiga sér stað á sama markaði og samkeppnishömlur.
  2. Hagkvæmnin verður að vera bein afleiðing af samrunanum og þurfa samrunaaðilar að sýna fram á að ekki sé hægt að ná fram sömu hagkvæmni án samrunans.
  3. Samrunaaðilar þurfa að geta sýnt fram á hagkvæmnina með óyggjandi hætti. Vel rökstudd gögn og áætlanir sem sýna fram á hvernig samrunaaðilar hyggjast ná hagkvæmni fram þurfa að liggja fyrir.

„Það er nokkuð einfalt að sýna fram á að samruni bankana geti uppfyllt öll þessi skilyrði og ef rétt er að því staðið er erfitt fyrir Samkeppniseftirlitið að ætla að standa í vegi fyrir samrunanum með tilliti til þessara leiðbeininga. Stærsta vandamálið er kannski að það eru tiltölulega fá fordæmi fyrir samrunum sem hafa verið samþykktir byggt á þessum rökum,“ segir Alexander.

Hann telur hins vegar að mögulega þyrfti sameinaður banki að selja frá sér einhvern hluta starfseminnar og/eða að hann yrði skikkaður til að bjóða nýjum aðilum á bankamarkaði aðgang að innviðum/kerfum með lágmarksarðsemi til að tryggja að nýir aðilar sjái sér hag í að reyna að komast inn á samkeppnismarkaði.

Alexander segir viðbúið að meðferðin hjá Samkeppniseftirlitinu taki tíma í ljósi þess að þetta yrði stærsti samruni sögunnar á innlendum markaði. Að hans mati mun málsmeðferðartími verða að lágmarki 18 mánuðir en gæti tekið 24-36 mánuði.

Nálgast má greininguna í heild sinni hér. Þar fer Akkur nánar yfir atriði sem snúa að hagkvæmni með samruna bankanna, þar með talið kostnaðarhagræði og erlendri fjármögnun bankanna. Hann dregur upp mynd af því hvernig rekstrarniðurstaða sameinaðs banka gæti litið og líklegan hluthafalista sameinaðs banka.