Greiningardeild Íslandsbanka birti verðbólguspá sína í dag. Deildin spáir 1% hækkun vísitölu neysluverðs í júní. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 8,4% á ársgrundvelli í júní en hefur hún ekki mælst svo mikil síðan í mars 2010. Greiningardeildin segir íbúðarverð og innflutta verðbólgu vega þyngst til hækkunar þennan mánuðinn.
Húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðarverðs að mestu, hefur hækkað um ríflega 10% það sem af er ári. Greiningardeildin spáir því að liðurinn hækki um 2,2% milli mánaða. Ekki er gert ráð fyrir að hækkun íbúðaverðs taki að lækka á næstunni en vonir standa til að íbúðaverð taki að róast þegar líða tekur á árið með hækkandi vöxtum og auknu framboði.
Gert er ráð fyrir því að verð á matar- og drykkjarvörum hækki um 0,7% í júní en liðurinn hefur hækkað um 5% frá ársbryjun og gert er ráð fyrir að verðhækkanir á matvörum halda áfram á næstu mánuðum.
„Erfitt er að spá fyrir um hversu langvinnar erlendar verðhækkanir koma til með að vera. Gert er ráð fyrir nokkurri styrkingu krónunnar það sem eftir lifir þessa árs, sem mun hjálpa til við að vega á móti aukinni innfluttu verðlagi. Að íbúðaverðið hægi á sér mun einnig vega á móti innfluttri verðbólgu en það er jafnframt ein helsta forsenda í langtímaspá Greiningar Íslandsbanka.“
Önnur mikilvæg forsenda í langtímaspá er að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi en kjarasamningar losna undir lok ársins. Langtímaspá hljóðar upp á 7,8% verðbólgu að meðaltali á þessu ári, 6,2% árið 2023 og 4,0% að jafnaði árið 2024.