Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hefur hækkað um rúmt 1% í fjögurra milljarða króna við­skiptum í dag.

Fjárfestar sem fengu samþykkt tilboð í tilboðsbók B fengu hluti sína úthlutaða í dag en 56 aðilar fengu hluti að verðmæti 3,7 milljörðum króna úthlutað.

Stærstu einstöku við­skiptin áttu sér stað strax við opnun markaða er rúm­lega 22,5 milljónir hluta skiptust um hendur. Gengið í við­skiptunun 110,28 krónur á hlut og því um tæp­lega 2,5 milljarða króna við­skipti að ræða.

Um ellefu­leytið í dag fór einnig í gegn um 250 milljón króna við­skipti er tæp­lega 2,2 milljónir hluta skiptumst um hendur á genginu 114,333 krónur á hlut.

Gengi bankans stendur í 115,5 krónur á hlut sem er enn tölu­vert hærra en út­boðs­gengið í til­boðs­bók A.

Fjár­málaráðu­neytið greindi frá því í morgun að til­boðs­bók A í út­boði ríkisins á eftir­standandi 45,2% hlut ríkisins í Ís­lands­banka hafi lækkað niður í 86,9 milljarða króna að loknum greiðslu­fresti og að teknu til­liti til aðlögunar og leiðréttingar.

Endan­leg stærð A-bókarinnar nemur um 95,9% af 90,6 milljarða króna heildar­virði út­boðsins‏.

Til­kynnt var fyrir helgi að 31.274 ein­staklingar hefðu sam­tals lagt inn til­boð fyrir 88,2 milljarða króna í bók A. Ljóst er því að til­boð að fjár­hæð 1,3 milljarðar króna féllu niður. Ein­stak­lingum í til­boðs­bók A fækkar sam­hliða um 254.

Ráðu­neytið áætlar að 3,7 milljörðum króna verði út­hlutað til 56 aðila í til­boðs­bók B í dag. Til­boð í Til­boðs­bók B námu 84,3 milljörðum króna.

Saman­lögð velta með bréf Ís­lands­banka síðustu tvo við­skipta­daga nemur nú yfir 2,5 milljörðum króna. Það sam­svarar um 32% af heildar­veltu kaup­hallarinnar á sama tíma­bili, eða nærri þriðjungi af allri veltunni.

Nokkur stór einstök við­skipti áttu sér stað með bréf bankans í gær en strax við opnun kaup­hallarinnar var til­kynnt um 76,5 milljón króna við­skipti á genginu 113 krónur.

Stærstu einstöku við­skiptin fóru fram á slaginu hálf þrjú í gær þegar markaðir opnuðu í Bandaríkjunum, en þá skiptust 1,1 milljón hlutir um hendur á genginu 114,5 krónur. Það jafn­gildir tæp­lega 126 milljón króna við­skiptum.