Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um rúmt 1% í fjögurra milljarða króna viðskiptum í dag.
Fjárfestar sem fengu samþykkt tilboð í tilboðsbók B fengu hluti sína úthlutaða í dag en 56 aðilar fengu hluti að verðmæti 3,7 milljörðum króna úthlutað.
Stærstu einstöku viðskiptin áttu sér stað strax við opnun markaða er rúmlega 22,5 milljónir hluta skiptust um hendur. Gengið í viðskiptunun 110,28 krónur á hlut og því um tæplega 2,5 milljarða króna viðskipti að ræða.
Um ellefuleytið í dag fór einnig í gegn um 250 milljón króna viðskipti er tæplega 2,2 milljónir hluta skiptumst um hendur á genginu 114,333 krónur á hlut.
Gengi bankans stendur í 115,5 krónur á hlut sem er enn töluvert hærra en útboðsgengið í tilboðsbók A.
Fjármálaráðuneytið greindi frá því í morgun að tilboðsbók A í útboði ríkisins á eftirstandandi 45,2% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi lækkað niður í 86,9 milljarða króna að loknum greiðslufresti og að teknu tilliti til aðlögunar og leiðréttingar.
Endanleg stærð A-bókarinnar nemur um 95,9% af 90,6 milljarða króna heildarvirði útboðsins.
Tilkynnt var fyrir helgi að 31.274 einstaklingar hefðu samtals lagt inn tilboð fyrir 88,2 milljarða króna í bók A. Ljóst er því að tilboð að fjárhæð 1,3 milljarðar króna féllu niður. Einstaklingum í tilboðsbók A fækkar samhliða um 254.
Ráðuneytið áætlar að 3,7 milljörðum króna verði úthlutað til 56 aðila í tilboðsbók B í dag. Tilboð í Tilboðsbók B námu 84,3 milljörðum króna.
Samanlögð velta með bréf Íslandsbanka síðustu tvo viðskiptadaga nemur nú yfir 2,5 milljörðum króna. Það samsvarar um 32% af heildarveltu kauphallarinnar á sama tímabili, eða nærri þriðjungi af allri veltunni.
Nokkur stór einstök viðskipti áttu sér stað með bréf bankans í gær en strax við opnun kauphallarinnar var tilkynnt um 76,5 milljón króna viðskipti á genginu 113 krónur.
Stærstu einstöku viðskiptin fóru fram á slaginu hálf þrjú í gær þegar markaðir opnuðu í Bandaríkjunum, en þá skiptust 1,1 milljón hlutir um hendur á genginu 114,5 krónur. Það jafngildir tæplega 126 milljón króna viðskiptum.