Heimilisbókhald Tim Walz, varaforsetaefnis Demókrataflokksins og JD Vance, varaforsetaefnis Repúblikanaflokksins, er álíka ólíkt og stjórnmálaskoðanir þeirra.
Til að mynda á Walz engar fasteignir og eru einu fjárfestingar hans tengdar lífeyrissjóðsgreiðslum. Vance er aftur á móti milljarðamæringur sem á eignir vítt og breitt um Bandaríkin.
The Wall Street Journal hefur tekið saman tekjur, eignir og fjárfestingar varaforsetaefna flokkanna tveggja sem sýnir gríðarlegan mun á persónulegum auði þeirra.
Varaforseti Bandaríkjanna fær 235 þúsund dali í árslaun sem samsvarar rúmlega 32 milljónum króna á gengi dagsins. Yrði Walz kjörinn myndi það þýða um 50% launahækkun miðað við þau laun sem hann fær sem ríkisstjóri Minnesota.
Persónulegur auður Tim Walz og eiginkonu hans, Gwen, er áætlaður á bilinu 112 til 330 þúsund dalir. Samkvæmt skattskýrslu þeirra hjóna frá árinu 2022 voru þau ekki með neinar fjármagnstekjur.
Vance er hins vegar með afar fjölbreytt tekjustreymi en hann á hlutabréf í meira en 100 félögum, rafmyntir, gull og fasteignir.
Þá fær hann einnig höfundarréttargreiðslur fyrir sjálfsævisögu sína Hillbilly Elegy en Netflix gerði kvikmynd byggða á bókinni árið 2020 sem Óskarsverðlaunaleikstjórinn Ron Howard leikstýrði.
Samkvæmt greiningu WSJ er áætlaður persónulegur auður Vance og eiginkonu hans, Usha Chilukuri Vance, allt að 10 milljónir dala en fasteignir þeirra hjóna eru þar undanskildar.
Hvorki Vance né Walz hafa skilað inn fjárhagsupplýsingum til FEC en varaforsetaefni hafa 30 daga frá tilnefningu til þess. Samkvæmt WSJ hefur Vance sótt um lengdan tímafrest til að skila inn fjárhagsupplýsingum sínum.
Einstaklega hógvært heimilisbókhald
Samanlagðar tekjur Tim og Gwen Walz árið 2022 voru 166.719 dalir fyrir skatt sem samsvarar um 23 milljónum króna. Um 116 þúsund dalir af tekjum þeirra hjóna voru laun Tim Walz sem ríkisstjóri Minnesota en laun ríkisstjórans hafa hækkað í 149.5500 dali síðan þá.
Rúmlega 51 þúsund dalir komu frá Gwen Walz vegna verktakagreiðslna en hún starfar sem sérstakur ráðgjafi rektors við háskólann í Augsburg ásamt því að kenna.
Hjónin eiga einnig svokallaðan 529-reikning en slíkir reikningar eru nýttir til að safna fé fyrir skólagjöldum barna sinna. Samkvæmt gögnum frá 2019 voru allt að 15 þúsund dalir inni á þeim reikningi en börn þeirra hjóna eru 17 og 23 ára.
Hjónin seldu heimili sitt fyrir 300 þúsund dali árið 2019 er Tim var kjörinn ríkisstjóri Minnesota en ríkið sér ríkisstjóranum fyrir húsnæðinu.
Olía, gull og fasteignir
Tekjur JD Vance árið 2022 voru um 1,3 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar um 180 milljónum.
Stór hluti tekna hans kom frá Narya Capital Management en hann stofnaði félagið árið 2019. Samkvæmt skattskýrslu Vance fékk hann um 945 þúsund dali í arðgreiðslu frá félaginu árið 2022 en félagið greiddi honum einnig um 110 þúsund dali í laun.
Þá fékk hann 121 þúsund dali í höfundarréttargreiðslur frá HarperCollins. Leigutekjur hans voru um 65 þúsund dalir vegna fasteignar í Washington D.C. Þá fékk hann um 34 þúsund dali í arðgreiðslur vegna hlutabréfaeignar og 102 þúsund dali í vaxtatekjur.
Vance gaf ekki upp tekjur eiginkonu sinnar er hann skilaði inn fjárhagsupplýsingum til bandaríska þingsins árið 2022 en hún er lögmaður hjá Munger Tolles & Olsen. Hún sagði hins vegar starfi sínu lausu eftir að Vance var tilnefndur sem varaforsetaefni Repúblikanaflokksins.
The Wall Street Journal áætlar að eignarhluti Vance í ýmsum félögum vegna fjárfestinga sinna megi verðmeta á bilinu 790 þúsund tali til 3,4 milljónir dala.
Verðbréfasafn Vance, sem inniheldur meðal annars olíu og gull, er metið á bilinu 2 til 4,2 milljónir dala. Rafmyntasafn hans er metið á 100 til 250 þúsund dali.
Þá eiga þau hjónin allt að 1,8 milljónir dala í handbært fé á reikningum sínum.
Hjónin eiga 1100 fermetra einbýlishús í D.C. sem þau keyptu fyrir 590 þúsund dali árið 2014 og leigja út. Þau eiga einnig fimm herbergja einbýlishús í Cincinatti sem þau keyptu fyrir 1,4 milljónir dala árið 2018.
Hlutafélag í 100% eigu þeirra hjóna keypti síðan 2500 fermetra einbýlishús í Alexandria í Virginíuríki fyrir 1,6 milljónir dala í fyrra. Samkvæmt WSJ stofnuðu hjónin félagið sérstaklega til að kaupa eignina en þau borga þannig lægri fasteignaskatt en ella.