Þótt verð­bólgan fari hjaðnandi og flestir hag­vísar bendi í rétta átt telur greiningar­deild Lands­bankans ó­lík­legt að vextir verði lækkaðir þegar peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans kemur saman í næstu viku.

„Við spáum því að peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands haldi megin­vöxtum bankans ó­breyttum í 9,25% í næstu viku,“ segir í Hag­s­já bankans sem kom út í morgun.

Að mati greiningar­deildarinnar má búast við því að nefndin stígi var­lega til jarðar og bíði eftir auknum slaka í þjóðar­búinu, ekki síst vegna ó­vissu í tengslum við yfir­standandi kjara­við­ræður og við­brögð stjórn­valda við ham­förunum í Grinda­vík.

Nefndin á­kvað að halda vöxtum ó­breyttum á síðasta fundi sínum í nóvember „í ljósi þeirrar ó­vissu sem ríkir um efna­hags­leg á­hrif jarð­hræringa á Reykja­nesi.“

„Nefndar­menn voru ein­huga um að halda vöxtum ó­breyttum, en út úr yfir­lýsingunni mátti lesa að ef ekki hefði verði fyrir ó­vissu um jarð­hræringar hefði nefndin allt eins getað hækkað vexti. Segja má að taum­haldið hafi hert sig sjálft milli funda,“ segir í Hag­s­jánni.

Verð­bólgan hefur hjaðnað um 1,2% á meðan vextir hafa verið ó­breyttir. Raun­stýri­vextir hafa því hækkað um 1,2 prósentu­stig ef þeir eru metnir út frá liðinni verð­bólgu.

„Ó­vissan í tengslum við jarð­hræringar á Reykja­nes­skaga ríkir enn þótt hún hafi breyst og snúi nú ekki síður að við­brögðum stjórn­valda við ham­förum í Grinda­vík og á­hrifum þeirra á efna­hags­lífið. Þá er ekki út­séð um á­fram­haldandi elds­um­brot á Reykja­nes­skaga. Stærsti ó­vissu­þátturinn til skamms tíma snýr þó senni­lega að yfir­standandi kjara­við­ræðum. Í augna­blikinu virðist SA og Breið­fylkingu stéttar­fé­laga innan Al­þýðu­sam­bands Ís­lands lítið hafa orðið á­gengt,“ segir í Hag­s­jánni

„Ó­vissa getur haft slæm á­hrif á verð­bólgu­væntingar, hvort sem hún tengist kjara­við­ræðum eða eld­gosum. Ó­hóf­legar launa­hækkanir myndu lík­lega kynda undir verð­bólgu­væntingar og þar með verð­bólgu og það gætu aukin ríkis­út­gjöld í tengslum við ham­farir í Grinda­vík líka gert, ef ekki er vandað til verka.“