Þótt verðbólgan fari hjaðnandi og flestir hagvísar bendi í rétta átt telur greiningardeild Landsbankans ólíklegt að vextir verði lækkaðir þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku.
„Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku,“ segir í Hagsjá bankans sem kom út í morgun.
Að mati greiningardeildarinnar má búast við því að nefndin stígi varlega til jarðar og bíði eftir auknum slaka í þjóðarbúinu, ekki síst vegna óvissu í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður og viðbrögð stjórnvalda við hamförunum í Grindavík.
Nefndin ákvað að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi sínum í nóvember „í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi.“
„Nefndarmenn voru einhuga um að halda vöxtum óbreyttum, en út úr yfirlýsingunni mátti lesa að ef ekki hefði verði fyrir óvissu um jarðhræringar hefði nefndin allt eins getað hækkað vexti. Segja má að taumhaldið hafi hert sig sjálft milli funda,“ segir í Hagsjánni.
Verðbólgan hefur hjaðnað um 1,2% á meðan vextir hafa verið óbreyttir. Raunstýrivextir hafa því hækkað um 1,2 prósentustig ef þeir eru metnir út frá liðinni verðbólgu.
„Óvissan í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga ríkir enn þótt hún hafi breyst og snúi nú ekki síður að viðbrögðum stjórnvalda við hamförum í Grindavík og áhrifum þeirra á efnahagslífið. Þá er ekki útséð um áframhaldandi eldsumbrot á Reykjanesskaga. Stærsti óvissuþátturinn til skamms tíma snýr þó sennilega að yfirstandandi kjaraviðræðum. Í augnablikinu virðist SA og Breiðfylkingu stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands lítið hafa orðið ágengt,“ segir í Hagsjánni
„Óvissa getur haft slæm áhrif á verðbólguvæntingar, hvort sem hún tengist kjaraviðræðum eða eldgosum. Óhóflegar launahækkanir myndu líklega kynda undir verðbólguvæntingar og þar með verðbólgu og það gætu aukin ríkisútgjöld í tengslum við hamfarir í Grindavík líka gert, ef ekki er vandað til verka.“