Seðlabankinn hefur á undanförnum árum gripið til margvíslegra aðgerða til að hemja verðhækkanir á fasteignamarkaði. Þessar aðgerðir virtust virka vel um mitt ár 2023, en markaðurinn tók samt sem áður við sér að nýju í byrjun árs 2024.

Pálmar Gíslason, greinandi á fasteignamarkaði, bendir á að hefðu venjulegar markaðsaðstæður ríkt, hefðu aðgerðir Seðlabankans líklega haft meiri áhrif.

Hin svokölluðu „Grindavíkuráhrif“ settu hins vegar strik í reikninginn og viðhéldu spennu á markaði á árinu 2024. Þau eru að mestu búin að ganga yfir og því munu aðgerðir bankans hafa töluverð áhrif á markaði á þessu ári.

Í heildina keypti Þórkatla 925 fasteignir af Grindvíkingum fyrir 70,5 milljarða króna á síðasta ári, þar af fyrir 33 milljarða í maí sem var stærsti mánuðurinn á fasteignamarkaði í fyrra. Þannig keypti ríkið rúmlega 75% af öllu íbúðarhúsnæði í Grindavík á árinu 2024.

© Pálmar Gíslason (Pálmar Gíslason)

Hin 25% eru að mestu í eigu leigufélaga, Grindavíkurbæjar og byggingarverktaka. Um 180 sérbýlishúseignir hafa enn ekki verið keyptar en allar líkur eru á að einhverjar af þeim verði keyptar á næstu mánuðum, segir Pálmar.

„Það má gera ráð fyrir að mikill hluti þess fjármagns sem þarna losnaði hafi farið beint inn á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, sem hjálpaði til við að loka sölukeðjum og auka veltuna næstu mánuði á eftir.“

„Við sjáum líka Grindavíkuráhrifin þegar horft er á fjölda fasteigna sem seljast yfir ásettu verði. Það varð tvöföldun á yfirboði á síðasta ári, úr 10% í 20% kaupsamninga. Hlutfallið hefur síðan tekið að lækka aftur eins og aðrir mælikvarðar. Grindavíkuráhrifin höfðu heilt yfir langmest með að segja að fasteignaverð hækkaði í fyrra, annars held ég að það hefði ekki hreyfst mikið,“ bætir Pálmar við.

© Pálmar Gíslason (Pálmar Gíslason)

Dýrkeypt íbúðaskuld

Hagstofan birti á dögunum gögn um mannfjöldaþróun á síðasta ársfjórðungi. Þar kom fram að landsmönnum fjölgaði um 660 á fjórðungnum, sem er talsvert minni fjölgun milli ársfjórðunga samanborið við á síðustu árum.

Pálmar segir engu að síður ljóst að íbúðaskuld og fyrirséður íbúðaskortur, sem lengi hafi verið bent á, gæti orðið aðkallandi vandamál á komandi misserum. Breytt mannfjöldaþróun, aldurssamsetning og fjölskyldumynstur styðji við aukna eftirspurn eftir húsnæði.

„Þrátt fyrir það er ekki verið að fara að byggja nægilega mikið á næstunni. Við sjáum það t.d. á flugvallarmálinu í Reykjavík þar sem allt útlit er fyrir að tíu þúsund íbúðir verði ekki byggðar,“ segir Pálmar og bætir við að margir byggingaraðilar glími nú við dræma sölu á nýbyggingum og hækkandi fjármagnskostnað, sem hjálpi eflaust ekki til við uppbygginguna sem þarf að eiga sér stað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.