Íbúða­kaup Grind­víkinga á höfuð­borgar­svæðinu í kjölfar náttúru­ham­fara á Reykja­nes­skaga höfðu óneitan­lega áhrif á íbúða­verð og þar af leiðandi áhrif á verðbólgu.

Á fundi Við­skiptaráðs í gærmorgun sagði Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri að það væri þó ekki hægt að skrifa þennan verðþrýsting að öllu leyti á Grind­víkinga þar sem stór hluti þjóðarinnar ákvað að kaupa sér fast­eign áður en Grind­víkingar fengu fé frá ríkinu, þar sem þeir vissu af því að verð myndi hækka í kjölfarið.

„Ég held að Grinda­víkuráhrifin sem nú er gengin yfir hafi tafið vaxtalækkunar­ferlið okkar um alveg sex mánuði,“ sagði Ás­geir á fundinum.

Hann sagði að það liti svo­leiðis út frá sínum bæjar­dyrum séð að það væri komin ágætis stjórn á fast­eigna­markaðinn og fram­boð væri að aukast en um 3.500 nýjar íbúðir voru byggðar í fyrra.

„Það er önnur mýta að vaxta­hækkanir okkar hafi haldið aftur af byggingar­geiranum, það er rangt. Ég sagði að allir sem gætu haldið á hamri væru komnir í byggingar­geirann. Af ein­hverjum ástæðum ákvað iðnaðar­mannafélag Hafnar­fjarðar að móðgast yfir því en það er samt þannig að byggingar­geirinn er mjög stór. Mikið af útlánum bankanna síðustu misseri hafa verið til byggingar­fyrir­tækja sem er jákvætt að ein­hverju marki en auðvitað hefur maður áhyggjur af því að það kunni að koma bak­slag því um leið og það hægir á hag­kerfinu þá kann það að hafa þau áhrif,“ sagði Ás­geir á fundinum.

Hann viður­kenndi jafn­framt að hafa haft trú á því að hægt væri að hafa með lánþega­skil­yrðum en það hafi ekki gengið eftir.

„Þess vegna settum við mjög hörð lánþega­skil­yrði en síðan kemur í ljós að það gekk ekki alveg eftir. Lánþega­skil­yrðin komu í veg fyrir skuld­setningu en ekki hækkun fast­eigna­verðs. Það er vegna þess að það eru aðrar leiðir til að koma peningum á milli, eða eigið fé, t.d. milli for­eldra og barna.“