Íbúðakaup Grindvíkinga á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar náttúruhamfara á Reykjanesskaga höfðu óneitanlega áhrif á íbúðaverð og þar af leiðandi áhrif á verðbólgu.
Á fundi Viðskiptaráðs í gærmorgun sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að það væri þó ekki hægt að skrifa þennan verðþrýsting að öllu leyti á Grindvíkinga þar sem stór hluti þjóðarinnar ákvað að kaupa sér fasteign áður en Grindvíkingar fengu fé frá ríkinu, þar sem þeir vissu af því að verð myndi hækka í kjölfarið.
„Ég held að Grindavíkuráhrifin sem nú er gengin yfir hafi tafið vaxtalækkunarferlið okkar um alveg sex mánuði,“ sagði Ásgeir á fundinum.
Hann sagði að það liti svoleiðis út frá sínum bæjardyrum séð að það væri komin ágætis stjórn á fasteignamarkaðinn og framboð væri að aukast en um 3.500 nýjar íbúðir voru byggðar í fyrra.
„Það er önnur mýta að vaxtahækkanir okkar hafi haldið aftur af byggingargeiranum, það er rangt. Ég sagði að allir sem gætu haldið á hamri væru komnir í byggingargeirann. Af einhverjum ástæðum ákvað iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar að móðgast yfir því en það er samt þannig að byggingargeirinn er mjög stór. Mikið af útlánum bankanna síðustu misseri hafa verið til byggingarfyrirtækja sem er jákvætt að einhverju marki en auðvitað hefur maður áhyggjur af því að það kunni að koma bakslag því um leið og það hægir á hagkerfinu þá kann það að hafa þau áhrif,“ sagði Ásgeir á fundinum.
Hann viðurkenndi jafnframt að hafa haft trú á því að hægt væri að hafa með lánþegaskilyrðum en það hafi ekki gengið eftir.
„Þess vegna settum við mjög hörð lánþegaskilyrði en síðan kemur í ljós að það gekk ekki alveg eftir. Lánþegaskilyrðin komu í veg fyrir skuldsetningu en ekki hækkun fasteignaverðs. Það er vegna þess að það eru aðrar leiðir til að koma peningum á milli, eða eigið fé, t.d. milli foreldra og barna.“