Gervigreindarfyrirtæki Elon Musk, xAi, segist nú vinna að því að fjarlægja það sem það kallar óviðeigandi færslur frá gervigreindarforriti sínu, Grok, eftir að notendur deildu skjáskotum sem sýndu forritið lofsyngja Hitler.
Á vef BBC segir að notendur birtu skjáskot á samfélagsmiðlum þar sem forritið sagði að leiðtogi þriðja ríkisins væri besti maðurinn til að bregðast við meintu hatri á hvítu fólki.
Samtökin ADL, sem stofnuð voru til að berjast gegn gyðingahatri, segja að færslurnar séu hættulegar og telja að þær hvetji til haturs gegn gyðingum.

Grok hefur einnig verið bannað í Tyrklandi eftir að dómstóll þar í landi lokaði fyrir aðgang að forritinu eftir að það veitti svör sem munu hafa verið móðgandi gagnvart forsetanum Tayyip Erdogan.
Skrifstofa aðalsaksóknara í tyrknesku höfuðborginni Ankara hefur hafið formlega rannsókn á svörum forritsins og er þetta í fyrsta sinn sem gervigreindarforrit er bannað í Tyrklandi.