Töluverð uppbygging er að eiga sér stað í Grundarfirði á Snæfellsnesi en bæjarstjórnin hefur nú til að mynda auglýst eftir tilboðum í byggingarrétt á Miðbæjarreit, sem er staðsettur í hjarta bæjarins á megingatnamótum við Grundargötu.

Stærð lóðarinnar er tæplega 2.600 fermetrar og er gert ráð fyrir miðbæjarhúsnæði fyrir blandaða starfsemi, annars vegar þjónustu og/eða atvinnustarfsemi og einnig íbúðarhúsnæði.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að fara nýjar leiðir í að ýta á eftir uppbyggingu og að mikil tækifæri liggi á svæðinu, meðal annars í ferðaþjónustu.

„Snæfellsnes hefur verið að vaxa mikið á undanförnum árum. Við í Grundarfirði erum líka mjög heppin með náttúrulega og góða höfn. Við erum í grunninn fiskihöfn en á síðustu tveimur áratugum höfum við verið í markaðssetningu fyrir skemmtiferðaskip og höfum verið að bæta aðstöðuna smátt og smátt. Þessa dagana erum við til dæmis að ljúka viðbyggingu við hafnarhúsið.“

Hún segir að innviðauppbygging fiskihafnar eins og í Grundarfirði nýtist vel fyrir skemmtiferðaskipin og að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að nýta góða hafnaraðstöðu og uppbyggingu mannvirkja.

„Við sjáum fyrir okkur að það verði byggt mikið upp í tengslum við ferðaþjónustu á Snæfellsnesi á komandi árum. Suðurlandið er að verða dálítið „uppselt“ og við teljum að staðsetning okkar og gæðin á svæðinu muni skapa okkur kjörstöðu.“

Höfnin ræður við margt

Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri Grundarfjarðarhafnar, segir að höfnin muni í sumar taka á móti um 80 skipum. Hann segir skemmtiferðaskipin gríðarlega mikilvæg fyrir bæjarfélagið en í fyrra námu hafnargjöld vegna skemmtiferðaskipa 44% af öllum tekjum hafnarinnar.

„Við vorum með 46 þúsund gesti skemmtiferðaskipa í fyrra og í ár er búist við því að þeir verði um 55-60 þúsund talsins. Þetta er líka mikilvægt fyrir svæðið og ferðaþjónustuna hér. Á stærstu dögum hef ég talið 31 Snæfelling sem var að vinna hér sem bílstjórar, leiðsögumenn og fleira. Svo eru það líka öll söfn, verslanir og veitingastaðir sem ferðamennirnir sækja.“

Að sögn Hafsteins getur höfnin tekið á móti allt að 210 metra löngum skemmtiferðaskipum, sem rista allt að 10 metra á dýptina, við Norðurgarð. Þar getur legið eitt stórt skip ásamt tveimur minni skemmtiferðaskipum. Auk þess getur skip legið á akkerum úti á firðinum.

Hann bætir við að allar ferðir skemmtiferðaskipanna séu bókaðar fyrir fram og móttaka gesta sé því fyrirséð. Veitingastaðir og fleiri þjónustuaðilar á svæðinu þurfi því ekki að taka skyndilega á móti fjölda ferðamanna án undirbúnings.