Landsnet varaði fyrst við mögulegum orkuskorti árið 2019 og á komandi árum raungerðust þær spár að mestu. Á dögunum gaf Landsnet út skýrslu um kerfisjöfnuð, sem leggur mat á orkuöryggi og líkur á orkuskorti næstu fimm ár. Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar, segir að horfurnar hafi lítið breyst, eftirspurn sé enn að aukast hraðar en framboð.

„Það sem niðurstöðurnar segja okkur er að staðan er þröng í dag, það má ofboðslega lítið út af bregða til þess að tryggja það að raforkuframboð geti mætt þeirri eftirspurn og þeirri þörf sem er á hverjum tíma. Það eru líkur á orkuskorti bara í eðlilegum rekstri og staðan þar af leiðandi versnar hratt þar sem við erum viðkvæm fyrir því ef t.d. uppbygging í raforkukerfinu nær ekki fram að ganga eða frekari tafir verða á nýrri framleiðslu, og svo er hætta á að orkuskortur verði í þurrum vatnsárum eins og hafa verið núna undanfarin ár,“ segir Svandís Hlín.

„Svo er það líka spurning um hvort flutningskerfið geti alltaf afhent raforkuna hverju sinni. Flutningskerfið er í dag víða við hámarksafkastagetu sína á tímum þar sem orkunotkun er mest, sem eykur þá líkurnar líka á skerðingum vegna flöskuhálsa í kerfinu. Þannig það er grundvallaratriði að draga úr flöskuhálsum með uppbyggingu flutningskerfisins, ná inn nýrri framleiðslu, þróa sveigjanlega notkun og bæta orkunýtni en það er ekki endalaust hægt að bæta við nýrri framleiðslu ef að flutningskerfið er svo ekki tilbúið til þess að mæta því.“

Þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir

Tafir hafa orðið á uppbyggingu flutningskerfisins og nýrra virkjana og má þar nefna sem dæmi þrautagöngu Suðurnesjalínu 2 og Hvammsvirkjunar. Svandís Hlín segist þó bjartsýn á að samstaða náist um þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir í framtíðinni.

Uppbygging nýrrar kynslóðar byggðarlínu hófst árið 2019 en tenging er nú komin með 220 kV háspennulínum frá Fljótsdalsstöð að Akureyri með lagningu Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3. Eftir standa Blöndulína 3, Holtavörðuheiðarlína 3 og Holtvörðuheiðarlína 1 sem skapa tengingu frá Akureyri inn í Hvalfjörð.

„Þetta eru þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir sem munu skila ábáta um allt land, bæði varðandi aðgengi að raforku og svo líka orkuöryggi. Það skapar líka forsendur fyrir auknum hagvexti og eykur samkeppnishæfni Íslands en í dag eru takmarkanirnar þess eðlis að það er lítið hægt að bæta við af notkun og stærri iðnaði og hamlar orkuskiptum,“ segir Svandís Hlín.

Að sama skapi sé uppbygging nauðsynleg til að draga úr truflunum og bilunum í kerfinu.

„Við erum að spá því að ef að uppbygging flutningskerfisins nær ekki fram að ganga, og þar þjóna þessar þrjár línur veigamesta hlutverkinu, þá erum við að tala um að rafmagnsleysi getur allt að fimmfaldast yfir tímabilið sem við erum að skoða og þá erum við ekki að ná okkar markmiðum um orkuöryggi, þannig að við þurfum uppbygginguna bara til að halda stöðunni í horfinu.“

Líkur á orkuskorti margfaldast

Landsnet vinnur nú í samstarfi með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og raforkueftirlitinu að því að skilgreina öryggismörk þegar kemur að raforku og setja upp áætlanir til að mæta þeim. Ef áform um uppbyggingu tefjast enn frekar og ekki er gripið til aðgerða eru líkurnar á orkuskorti 14% árið 2026 og tæplega 70% árið 2029, með tilheyrandi kostnaði.

„Tafir á uppbyggingu geta verið alveg gífurlega kostnaðarsamar og eru í rauninni óviðunandi fyrir okkur. Heimili og fyrirtæki eru alltaf háðari og háðari raforku og kröfurnar um örugga afhendingu raforku eru alltaf að aukast. Þannig við þurfum að vinna að því að mæta þeim þörfum samfélagsins,“ segir Svandís Hlín.

Þörf á sterkum innviðum til framtíðar

Ljóst er að vænt framboð haldi ekki í við eftirspurn og að án aðgerða muni markmið í loftslagsmálum ekki nást og orkuskiptin ekki ganga eftir. Horfa þurfi til annarra orkugjafa, þar á meðal vindorku. Sem stendur er geta flutningskerfisins til að taka á móti vindi takmörkuð, enda um nýja framleiðslutækni að ræða og áskoranir sem fylgja því. Byggja þurfi upp sterka innviði sem geta mætt sveiflum á hagkvæman og skilvirkan máta.

„Við erum komin með sterkt kerfi á Suðurlandi, á Þjórsár- og Tungnaársvæði meðal annars og inn á höfuðborgarsvæðið. Svo erum við komin með sterkt kerfi á Norðausturlandi en við náum ekki alveg að fullnýta kerfið okkar af því að það vantar styrkinn á milli þessara svæða. Þess vegna eru Blöndulína 3, Holtavörðuheiðarlína 3 og Holtavörðuheiðarlína 1 svo gífurlega mikilvægar miðað við núverandi kerfi til þess að fyrirbyggja rafmagnsleysi og tryggja öryggi,“ segir Svandís Hlín en hún tekur sem dæmi rafmagnsleysi sem kom upp í síðasta mánuði á Íberíuskaga.

„Það liggja náttúrulega ekki fyrir niðurstöður um hvað gerðist en þegar þú ert með svona mikið af vindi og sól og ef þú ert ekki með nægjanlegan styrk í kerfinu og tengingar, þá geta þetta verið afleiðingarnar. Þannig það er alveg gífurlega mikilvægt að við tryggjum þetta.“

Umfangsmiklar framkvæmdir eru á áætlun á næstu þremur árum þar sem fjárfestingar Landsnets hlaupa á tugum milljarða króna. Framkvæmdirnar munu duga í 40-70 ár en talið er að fjárfestingarnar muni borga sig eftir 4-13 ár.

„Ábatinn af þessum fjárfestingum getur numið á bilinu 200-2300 milljarða króna, það fer allt eftir því hversu hratt þetta gengur fyrir sig og hvernig við verðmetum virði raforkunnar og annað. Þannig að þrátt fyrir að við séum með stór áform um uppbyggingu þá er þetta alveg ofboðslega mikilvæg grunnforsenda fyrir frekari hagvöxt og ábata fyrir íslenskt samfélag.“

Greinin birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins um Samorkuþing 2025.