Ekki liggur enn fyrir með hvaða hætti styrkja á hlutverk ríkissáttasemjara líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Miðlunartillaga Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hefur varpað ljósi á valdheimildir embættisins sem eru mun takmarkaðri en hjá starfssystkinum hans á Norðurlöndunum.

Þá lét Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, hafa eftir sér í vikunni að með tillögunni væri ríkissáttasemjari að reyna að auka valdheimildir sínar. Samkvæmt tillögunni þarf fjórðungur félagsmanna Eflingar að greiða atkvæði gegn tillögunni svo hún verði felld.

Í stjórnarsáttmálanum segir að styrkja þurfi hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lendi í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem auki fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.

Í svari Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um stöðu málsins innan ráðuneytisins er vísað í yfirlit verkefna í stjórnarsáttmálanum. „Hlutverk/heimildir ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum hafa verið skoðaðar. Meta þarf í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins hvort rétt sé að leggja til breytingar hér á landi í því skyni að draga úr líkum á því að kjaraviðræður dragist á langinn,“ segir í uppfærslu á stöðu verkefna í stjórnarsáttmála.

Máttlaust embætti

Bent hefur verið á að valdheimildir ríkissáttasemjara séu ekki sambærilegar við það sem sést á hinum Norðurlöndunum. Í stjórnarsáttmálanum er standandi gerðardómur nefndur sem leið til að styrkja hlutverk ríkissáttasemjara.

Með standandi gerðardómi má ætla að átt sé við gerðardóm sem sé viðvarandi og til taks hjá ríkissáttasemjara. Öndvert við verklagið í dag, þar sem skipa þarf í einstaka gerðardóma. Þá hefur því verið haldið fram að ramminn í kringum gerðardóm hér á landi sé frekar frumstæður.

Gerðardómur er yfirleitt ákveðinn með lagasetningu, en þá fellur það í hlut forseta Hæstaréttar að tilnefna fólk í dóminn. Síðan setur gerðardómur sér starfsreglur sjálfur en álitaefnin markast af þeirri löggjöf sem Alþingi setur um gerðardóminn. Til að mynda hefur verið bent á að þegar deilt er við ríkið, þá sé það einnig ríkið sem skrifi lagafrumvarpið, sem verður að teljast stór galli á fyrirkomulaginu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 2. febrúar.