Yfirskrift hagspár Arion banka, sem kynnt var í byrjun apríl, ber heitið „Með vindinn í fangið“.

Bankinn reiknar með 1,3% hagvexti á árinu 2025. Í stað útflutningsdrifins hagvaxtar, sem fyrri spár höfðu gert ráð fyrir, verði það innlend eftirspurn, með einkaneyslu í broddi fylkingar, sem ýti undir hagvöxt í ár.

Útflutningshorfur hafi þannig versnað. Ekki nóg með að ferðaþjónustan eigi undir högg að sækja þá hafi staða alþjóðamála versnað sem gæti leitt til minni eftirspurnar eftir íslenskum útflutningi.

Engu að síður gerir bankinn ráð fyrir hóflegum útflutningsvexti í ár, „þar sem óhefðbundnari útflutningsgreinum, s.s. eldi og lyfjaframleiðslu, hefur vaxið fiskur um hrygg og álframleiðslan virðist laus við raforkuskerðingar – í bili“.

Að mati bankans snýr þó helsta áhættan af neikvæðum áhrifum viðskiptahindrana að sömu greinum, s.s. fiskeldi og lyfjaframleiðslu, sem eru í miklum vexti og áforma sókn á Bandaríkjamarkað. Bankinn gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti árið 2026 og 2,9% árið 2027.

Hagstofan er aðeins bjartsýnni á hagvöxt ársins 2025 í sinni þjóðhagsspá sem birtist í lok mars sl. Þar er gert ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár, 2,7% árið 2026 og 2,8% árið 2027.

Grunnurinn gagnslaus

Í hagspá Arion banka er áreiðanleiki fyrstu talna Hagstofunnar um landsframleiðslu gagnrýndur. Þannig segir í hagspá bankans að erfitt sé að spá í hagtölur „þegar grunnurinn er gagnslaus“.

Þegar Hagstofan birti landsframleiðslutölur fyrir fjórða ársfjórðung hafi hagvöxtur áður birtra fjórðunga t.a.m. verið færður upp um prósentustig.

Frá öðrum ársfjórðungi 2021 hafa endurskoðanir á hagvexti ávallt fært tölurnar upp á við – að meðaltali um 0,3% í fyrstu endurskoðun.

Samkvæmt nýjustu útgáfu þjóðhagsreikninga er hagvöxtur að meðaltali 2,5% meiri en fyrstu tölur gefa til kynna fyrir umrætt tímabil, að því er kemur fram í hagspá Arion banka.

„Ef við undanskiljum 3F 2024, þar sem aðeins ein endurskoðun hefur átt sér stað, hefur endurskoðunin frá fyrstu tölum aðeins einu sinni verið undir 1,3 prósentustigum á síðustu ellefu ársfjórðungum,“ segir í hagspánni.

Þá bendir bankinn á að verði endurskoðanir á 2.-4. ársfjórðungs síðasta árs sambærilegar og þær hafa verið undanfarin ár, gæti hagvöxtur árið 2024 endað í 1,8% í stað 0,5%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.