Verðbólguþrýstingurinn í Bandaríkjunum hélt áfram að minnka milli mánaða og eru allar líkur á því að seðlabankinn sjái hag sinn í að halda stýrivöxtum óbreyttum í september.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% milli júní og júlí samkvæmt vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna. Verðbólgan hækkaði úr 3% í 3,2% sem hagfræðingar segja að sé innan skekkjumarka þar sem verðbólga var óvenju lág í júlí 2022.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, lækkaði úr 4,8% í 4,7% milli mánaða.
Þriggja mánaða kjarnaverðbólga á ársgrundvelli lækkaði hins vegar niður í 3,1% úr 5% í maí og hefur hún ekki verið lægri í tvö ár.
Svo virðist sem Bandaríkjamönnum sé að takast það sem hagfræðingar sögðu að væri ómögulegt. Ná verðbólgunni niður án þess að kæla efnahaginn um of.
Laurence Meyer, sem sat í peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans frá 1996 til 2002, er gáttaður á árangrinum.
„Guð minn góður, þetta er ótrúlegt,“ er haft eftir Meyer í The Wall Street Journal í dag. „Það er algjörlega engin spurning að kjarnaverðbólgan sé að lækka hraðar en seðlabankinn átti von á,“ bætir stórorður Meyer við.
Í júní voru hagfræðingar og fjárfestar sammála um að seðlabankinn myndi hækka vexti í september og yrðu meginvextir bankans á bilinu 5,5 til 5,75%.
Nú virðast allir sammála um að það sé óþarfi að hækka vexti og er talið líklegt að seðlabankinn haldi þeim óbreyttum í 5,25 og 5,5%.
„Ég er sannfærð um að við séum á þeim stað að við þurfum að vera þolinmóð og halda vöxtum óbreyttum,“ segir seðlabankastjóri seðlabankans í Philadelphia.
„Eins og ég les gögnin erum við á þeim stað eða að nálgast þann stað þar sem hamlandi áhrif peningastefnunnar séu nægileg,“ segir Susan Collins seðlabankastjóri seðlabankans í Boston.
Húsnæðisliðurinn 90% af heildarhækkun
Húsnæðisverð í Bandaríkjunum hækkaði um 0,4% milli mánaða í júlí og bar ábyrgð á 90% af heildarhækkun vísitölu neysluverðs. Húsnæðis- og leiguverð hefur hins vegar verið að lækka í samanburði við stöðuna í byrjun árs en það tekur tíma fyrir það að hafa áhrif á verðbólgumælingar, segir Kathy Bostjancic, aðalhagfræðingur Nationwide Mutual.
Hún býst við því að húsnæðisverð muni lækka á komandi mánuðum og hafa jákvæð á hrif á verðbólguna.
Litlar hreyfingar á markaði
Verð á notuðum bílum lækkaði um 1,3% milli mánaða eftir miklar hækkanir þegar heimsfaraldrinum lauk. Orkuverð hækkaði um 0,1% og tryggingar á ökutækjum um 2%.
Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu lítillega á markaði í gær þrátt fyrir jákvæðar verðbólgutölur. S&P 500 vísitalan fór upp um minna en 0,1%, Dow Jones um 0,2% og Nasdaq um 0,1%.