Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita fasteignafélags, og Gylfi Ólafsson, fyrrum forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, bjóða sig fram til stjórnar Festi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs er liðinn. Aðalfundur félagsins fer fram 6. mars.
Hluthafar Festi munu kjósa á milli sjö frambjóðenda, þar á meðal fjögurra sitjandi stjórnarmanna.
Magnús Júlíusson, sem tók sæti í stjórn félagsins á hluthafafundi í júlí 2022, hafi ákveðið að sækjast ekki eftir áframhaldandi stjórnarsetu.
Tilnefningarnefnd Festi lagði til að Þórður Már Jóhannesson, fyrrum stjórnarformaður smásölufyrirtækisins, verði kjörinn aftur í stjórn félagsins.
Tveir stærstu hluthafar félagsins, LSR og Brú lífeyrissjóður lýstu því yfir í svari við fyrirspurn Heimildarinnar að þeir væru óánægðir með tilnefningu Þórðar Más. Brú sagðist vera mótfallin því að Þórður Már tæki aftur sæti í stjórn félagsins.
Margrét og Sigurlína sjálfkjörnar
Í skýrslu tilnefningarnefndar kom fram að tíu framboð hefðu borist til umfjöllunar hjá nefndinni. Nú er ljóst að hluthafar munu velja á milli eftirfarandi sjö frambjóðenda:
- Guðjón Reynisson, stjórnarformaður
- Sigurlína Ingvarsdóttir, varaformaður
- Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður
- Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður
- Guðjón Auðunsson
- Gylfi Ólafsson
- Þórður Már Jóhannesson
Með hliðsjón af lagaákvæðum um kynjakvóta er ljóst að Margrét og Sigurlína eru sjálfkjörnar í stjórn félagsins. Hluthafar Festi munu því í raun kjósa um hvaða þrír af fimm körlum í framboði verða kjörnir í stjórn.