Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita, var rétt í þessu kjörinn inn í stjórn Festi með 28,5% atkvæða en stjórnarkjöri lauk á aðalfundi fyrir skemmstu. Fjórir sitjandi stjórnarmenn halda sætum sínum.

Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita, var rétt í þessu kjörinn inn í stjórn Festi með 28,5% atkvæða en stjórnarkjöri lauk á aðalfundi fyrir skemmstu. Fjórir sitjandi stjórnarmenn halda sætum sínum.

Auk Guðjóns höfðu tveir aðrir gefið kost á sér til að taka sæti í stjórn í stað Magnúsar Júlíussonar, sem sóttist ekki eftir áframhaldandi stjórnarsetu fyrir aðalfund. Voru það Gylfi Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, og Þórður Már Júlíusson, fyrrverandi stjórnarformaður Festi, en tilnefningarnefnd hafði tilnefnt Þórð Má.

Meðan stjórnarkjörið fór fram ákvað Þórður Már þó að draga framboð sitt til baka og flutti eldræðu þar sem hann gagnrýndi harðlega Brú Lífeyrissjóð og LSR, sem höfðu lagst gegn því að hann yrði kjörinn.

Líkt og áður segir fékk Guðjón Auðunsson 28,5% greiddra atkvæða. Stjórnarformaðurinn Guðjón Reynisson fékk 34,2% atkvæða og Hjörleifur Pálsson 30,1%.

Margrét Guðmundsdóttir og Sigurlína Ingvarsdóttir voru sjálfkjörnar í stjórn félagsins með hliðsjón af lagaákvæðum um kynjakvóta. Þær fengu þó hvor um sig 3,5% atkvæða.

Við stjórnarkjörið var viðhöfð markfeldiskosning þar sem hluthöfum gafst kostur á að skipta atkvæðamagni sínu í hverjum þeim hlutföllum sem þeir kusu sjálfir á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Þannig gátu hluthafar sem dæmi lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðanda fremur en að þurfa að deila þeim jafnt á fimm frambjóðendur.

Alls voru 1.316.615.370 atkvæði greidd. Við upphaf fundar kom fram að fulltrúar hluthafa sem halda samtals á 87,4% hlut hafi mætt til að greiða atkvæði. Ekki liggur þó fyrir hvort einkafjárfestar sem gengu út af fundinum eftir ræðu Þórðar hefðu greitt atkvæði.

Stjórn Festis er því eftirfarandi:

Guðjón Reynisson, stjórnarformaður

Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður

Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður

Sigurlína Ingvarsdóttir, stjórnarmaður

Guðjón Auðunsson, stjórnarmaður