Guðjón Valur Sigurðsson og Kári Kristján Kristjánsson hafa stofnað félagið Fjörtíuogsex ehf. ásamt Gústaf Kristjánssyni, bróður Kára Kristjáns. Tilgangur félagsins er sagður vera rekstur gistiheimila og leiga fasteigna. Guðjón Valur og Kári Kristján áttu báðir farsælan feril með landsliðinu, en Guðjón Valur er leikjahæsti leikmaður landsliðsins með 364 leiki.
Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Kári sem minnst gera úr áformunum. Hann mun sitja í stjórn og framkvæmdastjórn félagsins og bróðir hans vera stjórnarformaður. Guðjón Valur verður í varastjórn félagsins, en hann er í dag þjálfari þýska liðsins handknattleiksliðsins Gummersbach. Kári segir þá félaga vera að velta fyrir sér möguleikum.
„Við höfum engin stór plön, en erum að velta fyrir okkur hvað við getum farið að gera í lífinu. Við erum með gistiheimilishúsnæði og ætlum að sjá hvernig því mun reiða af.“
Þeir eru ekki einu íþróttamennirnir sem hafa farið út í gistirekstur í Vestmannaeyjum á árinu. Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að hópur, sem samanstendur að mestu leyti af knattspyrnumönnum sem spila í efstu deildum á Íslandi, væri að kaupa Hótel Eyjar af Íslandsbanka.
Á meðal þeirra sem stóðu að kaupunum voru Guðjón Pétur Lýðsson leikmaður Grindavíkur í fótbolta, Alex Freyr Hilmarsson leikmaður ÍBV, Heiðar Ægisson leikmaður Vals og Ernir Bjarnason leikmaður Keflavíkur. Jónas Guðbjörn Friðhólm Jónsson, stjórnarmaður í ÍBV og Brynjar Óli, bróðir Ernis Bjarnasonar, stóðu einnig að kaupunum.