Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims sendir skýr skilaboð til stjórnvalda þar sem hann varar við því að fyrirhugaðar lagabreytingar geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð íslensks sjávarútvegs.
„Í augnablikinu eru dökkar horfur fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ef frumvörp ríkisstjórnarinnar sem nú liggja fyrir Alþingi verða samþykkt óbreytt,“ segir Guðmundur í tilkynningu sem fylgdi árshlutauppgjöri félagsins.
Tekjur Brims á fyrsta ársfjórðungi námu 101,4 milljónum evra, samanborið við 94,5 milljónir evra árið áður.
Fjárhagsleg niðurstaða ársfjórðungsins skilar sér í 9,64% ávöxtun á bókfærðu eigin fé á síðustu 12 mánuðum á sama tíma og verðbólga hefur verið að meðaltali 4,2%.
Hagnaður tímabilsins var 7,6 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 1,1 milljarði íslenskra króna á meðalgengi tímabilsins. EBITDA var 14,9 milljónir evra, eða 14,7% af tekjum.
Þrátt fyrir jákvæðar fjárhagslegar niðurstöður bendir Guðmundur á að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins geti breyst verulega verði tvö frumvörp ríkisstjórnarinnar samþykkt óbreytt:
„Eðlileg krafa að sitja við sama borð“
Frumvarp um hækkun veiðigjalda, sem hefði þýtt allt að 125% hærra veiðigjald fyrir Brim á grunni aflans 2024.
Guðmundur bendir einnig á að fyrir liggur frumvarp um tengda aðila í sjávarútvegi sem er „á skjön við það sem almennt gildir í íslensku atvinnulífi“ og takmarkar sérstaklega skráð sjávarútvegsfyrirtæki.
„Það er eðlileg krafa að fyrirtæki í sjávarútvegi sitji við sama borð og önnur fyrirtæki þegar kemur að sköttum og starfsumhverfi,“ segir Guðmundur og varar við því að ósamkeppnishæft umhverfi geti „dregið úr getu þeirra til að vaxa og eflast í alþjóðlegri samkeppni.“
Bolfiskveiðar gengu ágætlega og afli nam um 14 þúsund tonnum, samanborið við 11 þúsund tonn í fyrra.
Sala á ferskum karfaafurðum jókst á milli ára, en loðnubrestur annað árið í röð hafði áhrif á veiðar og vinnslu.
Kolmunnaveiðar skiluðu 18 þúsund tonna afla, en aðeins um 850 tonnum af loðnu var landað í lok febrúar. Verð á lýsi lækkaði milli ára.
Heildareignir félagsins voru 971 milljón evra í lok mars.
Eiginfjárhlutfall stendur sterkt í 49,1% og handbært fé frá rekstri nam 22,5 milljónum evra. Markaðsvirði félagsins var 128,6 milljarðar króna í lok fjórðungs og fjöldi hluthafa 1.661.